Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hafernir og fálkar skotnir

15.06.2010 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri Umhverfisstofnunar segist vart trúa því að fálkar og ernir séu skotnir. Hver einast Íslendingur eigi að vita að þessar tegundir séu alfriðaðar og á válista. Fjórði hver fálki og fimmti hver örn sem fundist hafa dauðir hér landi, hafi verið skotnir. Ernir og fálkar eru á válista og algjörlega friðaðir, örninn frá 1914 og fálkinn frá 1940. Talið er að um 65 varppör séu í íslenska hafarnarstofninum, en stofnin var nær útdauður fyrir hálfri öld. Á milli þrjú og fjögur hundruð varppör eru talin vera í íslenska fálkastofninum. Náttúrurfræðistofnun hefur rannsakað þau hræ fálka og arna sem fundist hafa síðustu ár.

Í mörgum þeirra eru högl og þótt þeir hafi ekki allir drepist um leið og þeir voru skotnir, hafa höglin dregið þá flesta til dauða.

Fégræðgi þeirra sem höndla með friðaða fugla, -lifandi eða uppstoppaða, -er örnum og fálkum hættuleg og rótgróin óvild fámenns hóps í garð arnarins á einnig hlut að máli, að mati Náttúrufræðistofnunar.

Dýravernd í landinu heyrir undir valdsvið Umhverfisstofnunnar, og segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunnar, vart trúa þessu. Allir Íslendingar eigi að vita að örninn og fálkinn eru friðaðir - það þurfi að ítreka það enn og aftur. Kristín segir mikilvægt að finna út hverjir séu líklegir afbrotamenn í þessu máli, og síðan að koma skýrum skilaboðum til þeirra, þar sem þetta er refsiverður verknaður.

Löggjöf um varðveislu og uppstoppun friðaðra fugla og verslun með þá er gölluð að mati Náttúrufræðistofnunnar og því erfitt að koma böndum á þessa ólöglegu iðju. Um áratugaskeið hafi verið óheimilt að stoppa upp fálka, nema fyrir opinber náttúrugripasöfn. Með reglugerð sem sett var árið 1996 opnaðist leið fyrir þá sem finna dauða fálka að láta stoppa þá upp fyrir sig, að því tilskildu að viðkomandi skilaði fuglinum áður til rannsókna á Náttúrufræðistofnun. Þrátt fyrir blátt bann við verslun með slíka fugla sé vitað að slík viðskipti hafi verið reynd. Stofnunin segir nauðsynlegt að stjórnvöld loki fyrir þessa gátt og jafnframt þurfi að kveða á um með skýrum hætti í löggjöfinni að öll verslun með uppstoppaða strangfriðaða fugla sé bönnuð.