Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hafði gefist upp á lífinu en frétti svo af NPA

26.04.2018 - 20:35
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Áður en ég frétti af NPA þá var ég svolítið búinn að gefast upp á lífinu og sá fram á að enda bara á einverju dvalarheimili þar sem ég mundi bíða eftir að fara í gröfina.“ Þetta segir Brandur Bjarnason Karlsson, sem er meira og minna lamaður frá hálsi og niður. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, oftast kallað NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð, var samþykkt samhljóða sem lög frá Alþingi í dag.

„Þetta er búin að vera mikil áskorun að bíða í allan þennan tíma, en þetta er gleðidagur í dag,“ segir Brandur. Hann segist ætla að leyfa sér að vona að lögfestingin þýði að hann fái þessa aðstoð. Hins vegar hafi fólk áður byggt upp hjá honum falskar vonir. „Þannig að þangað til ég undirrita samninginn ætla ég að vera varkár.“

En hvað þýðir þetta fyrir Brand? „Þetta þýðir að ég get fengið að taka mínar eigin ákvarðanir um mína tilveru – hvað ég geri, hvenær ég geri það og hvernig ég geri það. Og með hverjum ég geri það, sem skiptir líka miklu máli,“ segir hann. „Þannig að ég fær að ráða til mín fólk sem fyllir upp í þá vöntun sem ég hef út af minni fötlun.“

Spurður hvernig hann hafi farið að til þessa svarar Brandur: „Ég hef þurft að nota mikið fjölskyldu og vini þannig að það hefur verið svolítið íþyngjandi fyrir öll mín sambönd að vera í þessari stöðu, en ég er mjög heppinn að eiga rosalega gott fólk að.“