Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hafði ekki skilað inn læknisvottorði

26.07.2015 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nígeríski hælisleitandinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa smitað fleiri en eina konu af HIV-veirunni var líklegast ekki búinn að gangast undir læknisskoðun hér á landi áður en hann var handtekinn.

Í síðustu viku var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst en hann er grunaður um að hafa smitað konur af HIV-veirunni. Lögreglan rannsakar málið í samstarfi við sóttvarnalækni. 

Lögmaður hælisleitandans segir að maðurinn hafi sagt sér að hann hafi ekki vitað að hann væri smitaður af HIV. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að allir sem sæki um hæli á Íslandi þurfi að skila inn heilsufarsvottorði. Það geti hins vegar tekið nokkurn tíma frá því þeir koma til landsins. Svo virðist sem nígeríski hælisleitandinn hafi ekki verið búinn að því, engar upplýsingar finnast um slíkt hjá embætti Landlæknis. Hann kom til landsins í ágúst í fyrra.

Haraldur segir að unnið sé að rannsókn málsins og á von á að það skýrist í vikunni. Rannsóknin snýr meðal annars að því að skoða hvort fleiri konur kunni að vera smitaðar.