Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafa þungar áhyggjur af löngum biðlistum

13.11.2018 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Embætti Landlæknis segir það verulegt áhyggjuefni að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hér á hafi lengst umtalsvert. Í september 2018 biðu að meðaltali 411 einstaklingar eftir slíkum rýmum til samanburðar við 342 að meðaltali í september á síðasta ári. Fjölgun á landsvísu nemur því tuttugu prósentum.

Á þriðja ársfjórðungi 2018 voru að meðaltali 386 á biðlista eftir varanlegri dvöl í hjúkrunarrými og íbúafjöldi 67 ára og eldri á landsvísu var 42.273 í byrjun árs. Það jafngildir því að rúmlega 9 af hverjum 1.000 íbúum 67 ára og eldri hafi verið á biðlista. Þetta kemur fram á vef embættis Landlæknis. 

Biðtími eftir hjúkrunarrýmum hefur einnig lengst umtalsvert á undanförnum árum. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2018 var meðalbiðtími 83 dagar en 70 dagar á þriðja ársfjórðungi ársins 2017.

Embætti Landlæknis lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni og þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrýmum geti haft, bæði á lífsgæði þeirra sem bíða og heilbrigðiskerfið. Brýnt sé að allra leiða verði leitað til að bæta úr þessari stöðu.