Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafa tapað tugum milljóna vegna raskana á flugi

16.01.2020 - 22:37
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Air Iceland Connect hefur fellt niður nærri helming ferða sinna það sem af er ári vegna veðurs. Flogið var til Ísafjarðar í dag í fyrsta sinn í nærri viku. Farþegar taka röskuninni af rósemi.

Ef allt hefði verið eðlilegt hefðu verið farnar 22 ferðir. Það er því ljóst að ferðaáætlanir margra hafa raskast.

Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect segist ekki muna eftir tímabili á borð við þetta, nærri helmingurinn af fyrirhuguðu flugi hefur verið felldur niður.

„Aflýst flug eru 148 ferðir það sem af er, en þá er hvert flug talið, þannig að þetta eru 74 flugferðir fram og til baka,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect.

Eins og gefur að skilja koma engar tekjur inn fyrir flug sem ekki er farið og segir Árni þetta mjög kostnaðarsamt.

„Hver dagur hjá okkur þar sem við getum ekki flogið vegna veðurs hann telur hátt í tíu milljónir á hverjum degi. Þetta eru einhverjir tugir milljóna sem við höfum tapað í tekjum,“ segir Árni.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður hitti fólk á Ísafjarðarflugvelli í dag, sem ýmist var að koma eða fara, og sjá má í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV