Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa safnað á þriðja þúsund undirskrifta

15.12.2018 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Hátt í þrjú þúsund hafa skrifað undir hvatningu til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um að efna til bindandi íbúakosningar um stóriðju í Helguvík. Rafrænni undirskriftasöfnun lauk á miðnætti.

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík standa að söfnuninni. Þau vilja að íbúar fái að kjósa um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs, áður United Silicon, fái að hefja starfsemi á ný og sömuleiðis um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu.

Halda áfram að safna undirskriftum á pappír

Ef 20 prósent kosningabærra íbúa óska slíkrar atkvæðagreiðslu skulu bæjaryfirvöld verða við því innan árs, samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru um 13.500 íbúar 18 ára og eldri í Reykjanesbæ í byrjun árs og því þurfa samtökin að safna um 2.700 undirskriftum. Einar M. Atlason, formaður samtakanna, er vongóður um að það náist. „Þetta lítur alveg sæmilega út. Þó svo að rafræna undirskriftasöfnunin hafi endað á miðnætti í gær þá getum við haldið áfram með pappírsundirskriftasöfnunina til áramóta. Við erum búin að safna tæplega tvö þúsund rafrænum undirskriftum. Eitthvað er um undirskriftir frá fólki utan að landi, þannig að það síast eitthvað þar frá en mér telst til að við séum komnir með tæplega þrjú þúsund undirskriftir með þessum handskrifuðu,“ segir Einar. 

Stakksberg telur íbúakosningu ólögmæta

Ekki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um tillögu sem gengur gegn lögum eða myndi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins, samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Kjarninn greindi frá því í gær Stakksberg telji að íbúakosning sé ólögmæt og að ef starfsemi kísilverksmiðjunnar yrði hafnað í slíkri kosningu hafi Reykjanesbær bakað sér bótaskyldu. 

Farið verður yfir undirskriftirnar hjá Þjóðskrá Íslands. Næstu skref samtakanna eru að afhenda þær bæjarstjórn og sömuleiðis að óska eftir því við Umhverfisstofnun að starfsleyfi, sem á sínum tíma var veitt verksmiðju United Silicon, verði afturkallað.

Meirihlutinn kveðst hafna mengandi stóriðju

Samfylking, Bein leið og Framsóknarflokkur mynda meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Í málefnasamningi flokkanna sem gildir út kjörtímabilið segir að framboðin þrjú hafni mengandi stóriðju í Helguvík. Þar segir að stofna eigi framtíðarráð um starfsemina sem leita á lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ verði ávallt í sátt við íbúa.

Einar segir að þó að samtökin séu á móti stóriðju í Helguvík, sé mikilvægast af öllu að íbúar fái að eiga lokaorðið varðandi málið. Fari íbúakosning þannig að íbúarnir vilji stóriðju ætli samtökin að lúta því. Starfsemi hófst í verksmiðjunni haustið 2016 og bárust á annað þúsund undirskriftir til Umhverfisstofnunar vegna mengunar og lýsti nokkur fjöldi íbúa líkamlegum óþægindum og veikindum. Starfsemin var stöðvuð ári síðar og United Silicon varð gjaldþrota. Verksmiðja er nú í eigu Stakksbergs, félags í eigu Arion banka. Stefnt er að því að lagfæra verksmiðjuna og selja hana svo. Einar segir ljóst að íbúar séu ekki búnir að gleyma lyktarmenguninni sem lagði yfir bæinn á meðan starfsemi var í verksmiðjunni.