Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hafa rætt hámarkshraða á hjólastígum

26.03.2018 - 07:46
Merki Seltjarnarness við Sæbraut.
Vinsælt er að ganga og hjóla frá Eiðisgranda til Seltjarnarness. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Það hefur verið rætt innan stjórnkerfisins á Seltjarnarnesi að setja reglur um hámarkshraða á hjólastígum í bænum. Þetta segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri í viðtali við Morgunblaðið en tekur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt þar sem vinna standi nú yfir við gerð umferðaröryggisáætlunar. Hámarkshraði sé þó til skoðunar.

Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um hraðakstur hjólreiðafólks á Seltjarnarnesi og áhyggjur íbúa af því að of geyst sé farið þar sem gangandi vegfarendur eiga leið um.

Ásgerður segir að hraðakstur hjólreiðamanna hafi verið ræddur í nefndum bæjarins. Í vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar hafi komið fram ábendingar um hvernig mætti takmarka hraða, svo sem með upphleyptum línum, skiltum og fræðslu. Hún segist ekki kannast við alvarleg slys en að einhverjir hjólreiðamenn hafi fallið og slasað sig. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV