Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hafa miklar áhyggjur af gosi í Bárðarbungu

09.09.2014 - 21:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Auknar líkur eru taldar á eldsumbrotum í Bárðarbungu vegna viðvarandi landsigs í öskju eldfjallsins. Þróun mála þar veldur Almannavörnum og jarðvísindamönnum miklum áhyggjum. Stjórnendur Almannavarna hyggjast greina forsætisráðherra frá stöðu mála á morgun.

Sigið í Bárðarbungu síðustu daga veldur því að stjórnendur Almannavarna og jarðvísindamenn hafa nú verulegar áhyggjur af þróun mála þar. Enn er talið mögulegt að skjálftavirknin hætti og gosinu í Holuhrauni ljúki, eða að sigið í Bárðarbungu haldi áfram, með gosvirkni, jafnvel annars staðar en í Holuhrauni. 

„Þriðja sviðsmyndin er að vegna öskjusigsins brjótist út gos í Bárðarbungu sjálfri og það gæti þá brætt verulega mikinn ís og það gæti endað sem verulegt öskugos,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. „Það vatn sem þar myndi safnast fyrir myndi kannski ekki sleppa út úr öskjunni strax,en það myndi að lokum alltaf koma fram og þá sem mikið jökulhlaup.“

Þessi möguleiki heldur vöku fyrir stjórnendum Almannavarna; áhyggjur þeirra eru verulegar, segir Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. 

„Ef við skoðum söguna þá er þetta stór eldstöð og við eigum að taka hana alvarlega. Það hafa á sögulegum tímum og forsögulegum orðið stór gos í og við hana, og það væri mjög óvarkárt af okkur að hafa ekki af þessu stórar áhyggjur og miða okkar viðbrögð við það.“

Víðir segir að á morgun sé stefnt að því að kynna fyrir forsætisráðherra stöðu mála og tjá honum þær áhyggjur sem menn hafi af Bárðarbungu. Í dag áttu fulltrúar Almannavarna fund með stjórnendum hjá Landsvirkjun, vegna möguleikans á að flóð færi niður á vatnasvæði virkjana vestur af Vatnajökli. 

„Um leið og þessi atburðarás fór í gang í Bárðarbungu, greip Landsvirkjun til ráðstafana varðandi miðlum vatns milli lónanna þannig að þegar hefur verið gripið til áhættuminnkandi aðgerða,“ segir Víðir. „Síðan er það náttúrulega lykilatriði þegar gosið verður að við getum staðsett hvar upptökin eru, þannig að við finnum út hvert líklegasta vatnasviðið sem flóðið færi á .Viðbrögðin myndu þá miðast við það.“

[email protected]

Myndin hér að neðan sýnir niðurstöður radarmælinga á yfirborði Bárðarbungu.