Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa lokað opnu bókhaldi þriggja sveitarfélaga

30.04.2018 - 14:11
Merki KPMG utan á höfuðstöðvum KPMG.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
KPMG hefur lokað upplýsingasíðum þriggja sveitarfélaga þar sem gögn úr bókhaldi þeirra voru birtar eftir að í ljós kom að viðkvæm gögn sem ekki mátti birta voru birt. Persónuvernd hefur hafið skoðun á málinu.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá málinu um helgina og sagði frá frá því að viðkvæm gögn úr bókhaldi Seltjarness, Garðabæjar og Akranes hafi verið birt á upplýsingasíðunum. 

Meðal gagna sem birtust á upplýsingasíðunum eru nöfn þeirra sem hafa hlotið greiðslur frá sveitarfélögunum vegna sálfræðimeðferðar, notið fjárhagsaðstoðar og barna í barnaverndarkerfinu sem og greiðslur til fósturforeldra.

Kanna umfang gagnanna

Persónuvernd hóf í dag að skoða málið en stofnunin hefur heimild til að hefja frumkvæðisrannsókn telji hún ástæðu til. Ekki er deilt um að upplýsingarnar sem birtust á vefsíðum sveitarfélaganna hafi ekki átt að birtast.

„Nú erum við að kalla eftir gögnum,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. „Það sem gerist núna er að þetta fer í hefðbundið ferli á máli og eitthvað hefur komið fram en væntanlega ekki allt. Nú þarf persónuvernd að fá öll gögn málsins í hendur til að meta stærð og umfang málsins.“

Fésektir við brotum gegn persónuvernd

Brot á lögum um persónuvernd varða fésektum og allt að þriggja ára fangelsi. Sveitarfélögin sem um ræðir gætu líka hafa bakað sér skaðabótaskildu gagnvart þeim einstaklingum sem brotið var á með birtingu gagnanna. Óljóst er hins vegar hvort og þá hvaða viðurlögum verði beitt í þessu tilviki, enn á eftir að kanna umfangið.

Það styttist þó í að harðari refsingar verði við brotum sem þessum. „Með nýrri evrópskri persónuverndarlöggjöf eru kynnt til sögunnar sektir sem hægt er að beita ef um alvarleg brot á persónuverndarlögum er að ræða,“ segir Helga. Það mun þó ekki reyna á það í þessu tilviki þar sem regluverkið hefur enn ekki verið innleitt hér á landi.

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV