Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hafa lagt hald á kókaín fyrir hálfan milljarð

05.07.2017 - 08:20
OZZO
 Mynd: ISAVIA/© OZZO Photography - ISAVIA
Erlendur ríkisborgari situr í gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið gripinn á Keflavíkurflugvelli með 2,2 kíló af kókaíni í lok síðasta mánaðar. Hann bætist í hóp 12 erlendra ríkisborgara og eins Íslendings sem hafa annað hvort verið dæmdir eða ákærðir fyrir smygl á kókaíni frá því í byrjun þessa árs. Lögreglan á Suðurnesjum hefur lagt hald á tæplega tíu kíló af fíkniefninu í Leifsstöð frá því í október á síðasta ári.

„Við höfum ekki lagt hald á fullunnið amfetamín að ráði í að verða tvö ár,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við fréttastofu.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglan á Suðurnesjum hefur lagt hald á tæp tíu kíló af kókaíni á síðustu níu mánuðum.

Kókaín virðist allsráðandi í smygli á fíkniefnum til Íslands í gegnum Leifsstöð. Lausleg athugun RÚV í gegnum dómasafn Héraðsdóms Reykjaness á þessu ári leiddi í ljós að aðeins einn hefur verið dæmdur fyrir að smygla til landsins 700 millílítrum af amfetamínbasa. Hann var handtekinn við komuna til landsins í febrúar á þessu ári þegar hann var að koma frá Berlín.

Frá því í janúar á þessu ári hafa 11 erlendir ríkisborgarar og einn Íslendingur verið dæmdir fyrir kókaín-smygl. Tveir sitja í gæsluvarðhaldi, brasilískur karlmaður sem hefur verið ákærður fyrir að smygla til landsins 1.950 millílítrum af fljótandi kókaíni og svo erlendur ríkisborgari sem var handtekinn í lok síðasta mánaðar með 2,2 kíló af kókaíni.  

Flest þeirra sem hafa verið dæmd hafa komið með flugi frá Amsterdam en nokkrir hafa einnig komið frá Kaupmannahöfn. Þá eru langflestir hollenskir ríkisborgarar en í þessum hópi eru einnig fólk frá Brasilíu, Póllandi og sv var kona frá Bandaríkjunum dæmd fyrir að smygla til landsins 286 grömmum af kókaíni frá þýsku borginni Düsseldorf.

Héraðsdómur Reykjaness
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Þyngsta dóminn fékk Þjóðverji sem flutti til landsins 1,9 kíló af kókaíni frá München. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi.  Tollsérfræðingur sagði fyrir dómi að stress hefði komið upp um hann.

Kókaínið sem reynt hefur verið að flytja til landsins á þessu tímabili er missterkt - allt frá 87 prósent í styrkleika niður  í 37 prósent.  Jón Halldór segir að Háskóli Íslands miði í eiturefnagreiningu sinni að efnið í götusölu sé í kringum þrjátíu prósent að styrkleika. Reynsla lögreglunnar sýni aftur á móti að styrkleiki þess efnis sem hún leggur hald á sé í kringum 7 til 15 prósent. „Það er því stundum hægt að margfalda þetta efni þrisvar  og allt upp í átta sinnum.“

Jón Halldór segir enga eina skýringu á því af hverju kókaín sé fyrirferðarmeira nú en oft áður. Þetta geti bent til þess að amfetamín sé í meira mæli framleitt hér á landi en líka að aukin velmegun.

Kókaín er dýrara en amfetamín. Samkvæmt frétt sem birtist í Fréttablaðinu fyrir tveimur árum kostaði grammið um 18 þúsund krónur. Verðmæti kókaínsins sem lögreglan á Suðurnesjum hefur lagt hald á síðustu níu mánuði er því aldrei undir 180 milljónum - raunar væri varlega áætlað götuvirði þess nær rúmum hálfum milljarði.

Kári Stefánsson og Þórarinn Tyrfingsson, sem ræddu erfðir fíknar í Morgunútgáfunni.
 Mynd: Óðinn Jónsson - RÚV
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, segir í samtali við fréttastofu að þessar tölur séu í samræmi við það sem hann hafi séð, neysla kókaíns hafi farið vaxandi frá því í lok síðasta árs. „Þetta datt niður í hruninu og jókst síðan lítillega skömmu eftir það. En nú finnum við greinilega fyrir því að neysla kókaíns er að stöðugt að aukast.“ Margt bendi því til þess að fíkniefnaneyslan sé að taka á sig svipaða mynd og hún var fyrir hrun.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, segist ekki geta tekið undir að kókaín sé orðinn meira áberandi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi fyrst og fremst verið að leggja hald á efni sem notað er í e-pillugerð, svokallað MDMA.  Til að mynda hafa tveir erlendir karlmenn setið í gæsluvarðhaldi síðan í lok apríl grunaðir um að smygla til landsins þremur kílóum af MDMA með Norrænu.  

Grímur segir þó alveg rétt að þessi mikli innflutningur á kókaíni geti bent til þess að hér sé verið að framleiða amfetamín til sölu. „Þá ættu menn að vera flytja inn efni til þess en okkur hefur ekki sýnst það. Þetta er samt hlutur sem við erum alltaf með til skoðunar.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV