Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa innheimt milljarða vegna Panamaskjalanna

03.04.2019 - 17:56
epa05246591 People throw fake money in the air during a protestt against money laundering in front of the headquarters of Raiffeisen Bank International (RBI) in Vienna, Austria, 06 April 2016. Leaked documents published on 03 April 2016 suggest that 140 politicians and officials from around the globe, including 72 former and current world leaders, have connections with secret 'offshore' companies to escape tax scrutiny in their countries. According to reports, two Austrian banks are caught up in the Panama Papers leak that exposed how some of the world?s most powerful public figures hide money in offshore bank accounts. Hypo Vorarlberg and Raiffeisen Bank International AG are to be investigated by financial authorities.  EPA/CHRISTIAN BRUNA
Peningaþvætti í skattaskjólum mótmælt í Vínarborg Mynd: EPA
Panamaskjölin svonefndu hafa gert skattayfirvöldum í 22 löndum víðs vegar um heiminn kleift að innheimta á annað hundrað milljarða króna í sektir og vangoldna skatta vegna fjármuna sem komið hafði verið fyrir í skattaskjólum. Víðs vegar er enn verið að rannsaka undanskotin þannig að upphæðin á eftir að hækka.

Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ICIJ komu Panamaskjölunum á framfæri árið 2016. Þau leiddu í ljós að háum upphæðum hafði verið komið fyrir í skattaskjólum, iðulega með aðstoð starfsmanna lögmannsskrifstofunnar Mossack Fonseca í Panama. Nöfn nokkurra Íslendinga komu fyrir í skjölunum, eins og kunnugt er af fréttum.

Alþjóðasamtökin hafa safnað saman upplýsingum um eftirfylgni uppljóstrananna. Samkvæmt þeim hafa skattayfirvöld í 22 löndum náð að innheimta 1,2 milljarða dollara, jafnvirði 143 milljarða króna í vangoldna skatta og sektir vegna undanskotanna.

Og ekki eru öll kurl enn þá komin til grafar. Í Danmörku greindu skattayfirvöld til dæmis frá því í dag að forsvarsmenn 34 fyrirtækja hefðu verið ákærðir vegna upplýsinga úr Panamaskjölunum. Stjórnvöld þar í landi greiddu jafnvirði rúmlega 107 milljóna króna fyrir aðgang að skjölunum.

Í Kanada eru hátt í níu hundruð einstaklingar, fyrirtæki og sjóðir enn til rannsóknar vegna undanskota. Talið er að þau nemi hundruðum milljarða dollara. Enginn hefur enn verið ákærður þar í landi.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV