Hafa gefið 56 milljónir til Kickstarter

Mynd með færslu
 Mynd:

Hafa gefið 56 milljónir til Kickstarter

04.03.2014 - 16:46
Íslendingar hafa gefið 56 milljónir til verkefna á fjáröflunarsíðunni Kickstarter. Í gær náðist sá merkilegi áfangi að notendur síðunnar höfðu gefið yfir einn milljarð dollara. Svíar eru gjafmildastir af öllum Norðurlandaþjóðum - hafa gefið 7,1 milljón dollara eða rúmar 800 milljónir.

Þetta kemur fram á vefnum Arctic Startup.  

Þar segir að Íslendingar hafi gefið hálfa milljón dollara, Norðmenn 4,1 milljón dollara eða 462 milljónir íslenskra króna, Danir fjórar milljónir dollara eða 451 milljón króna, Rússar 3,3 milljónir dollara, 372 milljónir og Finnar 2,6 milljónir dollara 293 milljónir. 

Svíþjóð er eina Norðurlandaþjóðin sem kemst inn á topp tíu listann á heimsvísu, er þar í sjöunda sæti, rétt fyrir ofan Japan.

Á vef Arctic Startup segir enn fremur að þegar Íslendingar hafi látið framlag af hendi rakna hafi þeir verið ansi gjafmildir - að meðaltali gáfu þeir um 348 dollara eða 39 þúsund krónur. Norðmenn eru í öðru sæti, gáfu 283 dollara en Svíar 225 dollara.