Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa gefið 1.500 reiðhjól á sex árum

23.03.2018 - 14:14
Fyrstu hjólin voru afhent í dag. - Mynd: Barnaheill / Barnaheill
Hjólasöfnun Barnaheilla hófst formlega á hádegi í dag þegar Friðrik Dór Jónsson, söngvari, afhenti fyrstu hjólin á blaðamannafundi í Sorpu við Sævarhöfða. Hjólasöfnun Barnaheilla gengur út á það að fólk gefur hjól sem það er hætt að nota. Sjálfboðaliðar gera hjólin upp og þau eru svo gefin börnum sem ekki geta eignast hjól á annan hátt.

Hjólasöfnunin fer nú fram í sjöunda sinn. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir að söfnunin hafi alltaf gengið mjög vel. „Þjóðin tekur vel við sér á hverju ári. Við getum glaðst yfir því að yfir 1.500 börn hafa fengið hjól í gegnum þessa söfnun og gaman að segja frá því að oft koma sömu hjólin til okkar aftur. Þetta er því gott verkefni, bæði lýðheilsu- og umhverfislega séð,“ sagði Erna í viðtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson í hádegisfréttum. 

Tekið er á móti hjólum á endurvinnslustöðvum Sorpu á Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Söfnunin stendur til 10. maí. Byrjað verður að úthluta hjólum um miðjan apríl. Hjólasöfnunin er samstarfsverkefni Æskunnar barnahreyfingar IOGT, Sorpu, Rauða kross Íslands, Hjólafærni og annarra.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV