Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hafa ekki styggt arnarparið

29.07.2012 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Sæferða í Stykkishólmi segir það alrangt að kenna megi ferðum fyrirtækisins nærri arnarhreiðri í Breiðafirði um að þar komist ungar ekki á legg. Náttúrufræðistofnun kærði fyrirtækið í júní fyrir að bjóða upp á ferðir nærri hreiðrinu í óleyfi.

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að varp fjörutíu og fimm arnarpara hafi misfarist í sumar, líklega vegna kuldakasts í fyrrihluta maímánaðar en einnig hafi mannaferðir truflað varp á vissum svæðum.

Í því sambandi er ferðaþjónustufyrirtækið Sæferðir í Stykkishólmi sérstaklega nefnt - fyrirtækið hafi siglt ólöglega að arnarhreiðrum og truflað fuglana á viðkvæmum tíma.

Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, segist ekki skilja í ávirðingunum frá Náttúrufræðistofnun nú. Fyrirtækið hafi fengið leyfi frá Umhverfisstofnun til að skoða umrætt arnarpar í þrettán ár.

„Okkur var tjáð í fyrra að líklega, þetta var svo gamalt par, hefðu eggin verið ófrjó hjá honum, þess vegna hefði hann ekki ungað út. Svo við ákváðum að bíða, sjá hvort hann kæmi. Áttunda maí sóttum við um því þá höfðum við staðfestar fréttir um að þetta par væri komið. En svarið barst ekki fyrr en nærri fimm vikum seinna og á þeim tíma á milli fórum við af stað og töldum bara að þetta yrði afgreitt eins og venja hefur verið í mörg ár. En svo höfðu þeir það sem einhverja tylliástæðu, eftir fimm vikna bið, að við værum byrjaðir og þar með værum við í óleyfi, sem er auðvitað tæknilega rétt, en okkur fannst þetta mjög sérkennilegar stjórnsýsluaðferðir.“

Pétur segir að öll þessi ár hafi starfsmenn Sæferða farið að þeim reglum sem gildi nærri arnarvarpi og gætt þess að styggja ekki fuglana. „Enda hefur ferðaþjónustufyrirtæki engan hag af því að skemma fuglalífið, það sér það hver maður.“