Hafa ekki áhyggjur af „villiköttum“

13.11.2017 - 22:16
Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segjast ekki hafa áhyggjur af því að tveir þingmenn Vinstri grænna hafi greitt atkvæði gegn stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna. Þeir segja komið að því að stjórnmálin axli ábyrgð og láti stjórnmálin virka.

Þingmenn bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks  segja fullan einhug innan flokkanna um að reyna að mynda ríkisstjórn með Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Flokkarnir eru komnir í formlegar stjórnarmyndunarviðræður, en eins og fram kom í fréttum í dag greiddu tveir þingmenn VG atkvæði gegn því að farið yrði í viðræðurnar. Það veldur ekki áhyggjum hjá viðsemjendum þeirra.

„Nei, það held ég ekki. Þeir níu sem eru með eru alveg klárir með og það er fullur einhugur þar. Svo verður bara að koma í ljós hvernig hitt fer,“ segir Þórunn Egilsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokks.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og starfandi varaformaður hefur heldur ekki áhyggjur af þessu.

„Nei, það sem skiptir máli er að það er mikill samhljómur á milli forystu flokkanna og það er mikill samhljómur um það að mynda hérna breiða ríkisstjórn sem nær vonandi einhverri jarðtengingu við stjórnmálin á Íslandi.“

Kosið hefur verið til þings hér á landi tvisvar á einu ári. Bæði Þórunn og Áslaug Arna eru á því að nú þurfi stjórnmálin að sýna hvað þau geta, þrýst sé á það.

„Já, við finnum mikið fyrir því. Ég held að núna sé kominn tími til þess að við tökum okkur saman stjórnmálamenn og sýnum að við getum tekist á við þetta verkefni. Að vinna saman, að takast á við málin saman og ná breiðri sátt. Ég held að það sé mjög aðkallandi verkefni fyrir okkur sem stétt, stjórnmálamennina,“ segir Þórunn.

Áslaug Arna tekur undir það.

„Já, nú þurfum við að fara að láta stjórnmálin virka. Það kaus enginn einn flokk til að stjórna hér, þannig að við þurfum auðvitað bara að ná saman og sýna það að við ætlum að láta stjórnmálin virka á ný. Það er nú verkefni okkar stjórnmálamannanna að ná einhverju sameiginlegu samkomulagi þar um.“

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV