Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hafa búið um borð í skútu í 17 ár

17.07.2017 - 20:15
Mynd: RUV / RUV
Sjö, að verða átta, manna fjölskylda hefur ferðast um heimsins höf á skútu undanfarin 17 ár. Þau segja markmið sitt að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Þau eru nú stödd á Ísafirði.

Vilja vekja athygli á loftslagsbreytingum

Dario og Sabine eru frá Sviss og lögðu af stað í siglingu fyrir 17 árum. Þau sigla um höfin, safna gögnum fyrir háskóla og stofnanir og halda fyrirlestra til að vekja athygli á ferðum sínum og loftslagsbreytingum. 

„Skrifstofan mín er að bráðna. Ég er fjallaleiðsögumaður. Í Ölpunum í Sviss er jöklarnir að bráðna. Svo mér datt í hug að fara í þennan leiðangur,“ segir Dario Schwörer, veðurfræðingur, leiðsögumaður og leiðangursstjóri ToptoTop leiðangursins. 

Margt breyst á ferðinni

Þegar lagt var í ferðina stóð til að hún yrði í 4 ár. „Líf mitt núna er talsvert öðruvísi en ég bjóst við, sérstaklega því öll börnin mín eru um borð með mér,“ segir Sabine Schwörer, sem er hjúkrunarfræðingur og leiðangursstjóri ToptoTop ferðarinnar ásamt eiginmanni sínum.

Nám um borð í skútunni

Krakkarnir eru nú orðnir fimm og sjötta barnið væntanlegt á Akureyri í lok ágúst. Krakkarnir stunda nám um borð á ábyrgð foreldra og sjálfboðaliða. Þá sækja þau skóla þegar stoppað er í landi um lengri tíma.

„Stærðfræði er mjög mikilvæg en ef þú veist hvernig á að lifa af í heiminum þá skiptir það meira máli,“ segir Salina, sem er 12 ára. Andri, sem er 9 ára, segist þó kunna að meta stærðfræði.

Báturinn bara skjól og faratæki

Þótt krökkunum finnist farið að þrengjast um í bátnum þá er Dario ekki á sama máli. Hann segir bátinn bara vera faratæki og skjól. 

„Sjóndeildarhringurinn er okkar einu veggir og þakið er himininn. Við erum alltaf utandyra,“ segir Dario.

Ekki hægt að fara í fússi

En hvað finnst krökkunum um lífið í bátnum?

„Það er hægt að klifra, mér finnst svo gaman að klifra,“ segir Alegra 6 ára. Noe sem er 7 ára segir það besta vera að þau sjái höfrunga og allskonar fyrirbæri í sjónum. „En gallinn er sá að þegar við rífumst eða förum í fýlu þá getum við ekki farið neitt. Við erum bara föst á bátnum.“

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður