Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa bjargað 218 manns á þremur dögum

20.09.2019 - 00:38
Mynd með færslu
 Mynd: Læknar án landamæra
Áhöfn norska björgunarskipsins Ocean Viking, sem starfar með alþjóðlegu hjálparsamtökunum Læknar án landamæra, bjargaði í kvöld 36 manns af yfirfullum trébáti á Miðjarðarhafinu, um 28 kílómetra frá ítölsku eyjunni Lampedusa. 218 flóttamenn eru nú um borð í skipinu.

Yfirvöld á Möltu höfðu samband við stjórnendur skipsins og báðu þá að koma fólkinu til hjálpar, eftir að ábending barst um bát flóttafólksins. Fór björgunarstarfið fram í samstarfi við siglingayfirvöld á Möltu.

73 var bjargað um borð í Ocean Viking á miðvikudag og 109 á þriðjudag. Samtals eru því 218 manns, sem fundust á reki á Miðjarðarhafi, um borð í Ocean Viking núna. Skipstjórinn hefur óskað eftir leyfi til að sigla með fólkið í örugga höfn. Til þessa hafa engin svör borist nema frá Líbíu, sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað úrskurðað ótryggt og óásættanlegt móttökuríki. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV