Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa birt 23 metoo-sögur af Jóni Baldvini

04.02.2019 - 09:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Hópur kvenna hefur birt 23 metoo-sögur af Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi ráðherra og sendiherra. Í yfirlýsingu segir að þær vilji gera sögurnar opinberar í anda metoo-bylgjunnar sem hefur farið yfir heiminn.

Jón Baldvin var utanríkisráðherra frá 1988 til 1995 og sendiherra í Bandaríkjunum frá 1998 til 2002 og í Finnlandi frá 2002 til 2005. Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um frásagnir kvenna af meintri ósæmilegri hegðun hans og áreitni. 760 hafa gengið í metoo-hóp á Facebook þar sem fjallað er um Jón Baldvin. Í hópnum eru konur sem bera Jón Baldvin sökum, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk.

„Við viljum að það samfélag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið gerð opinber geti nú lesið þær reynslusögur sem er okkar sannleikur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þjáningu sem samskipti
við hann hafa valdið okkur í áratugi. Við erum frelsinu fegnar,“ segir í yfirlýsingu kvennanna. Þær segjast vilja beina spjótum sínum að gerandanum Jóni Baldvini, fyrrverandi kennara, skólameistara, ritstjóra, þingmanni, formanni Alþýðuflokksins, ráðherra og sendiherra og að nöfn þeirra skipti ekki máli heldur hann sem gerandi. Sögurnar er hægt að lesa á síðunni metoo-jonbaldvin.blog.is/blog/metoo-jonbaldvin/.

Jón Baldvin hefur neitað öllum ásökunum ef frá er talin ein. Hann hefur gengist við því að hafa sent barnungri systurdóttur eiginkonu sinnar ósæmileg bréf.