Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hafa áhyggur af lífríki Lagarfljóts

06.09.2011 - 19:35
Veiðibændur við Lagarfljót hafa áhyggjur af lífríki fljótsins. Aldrei hefur jafnlítið af fiski veiðst í fljótinu enda telja menn að fiskurinn rati ekki lengur upp fljótið vegna gruggs úr Jöklu.

Rannsóknir Veiðimálastofnunar sýna að lífríki Lagarfljóts hefur breyst umtalsvert með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar, þegar farið var að veita Jökulsá á Dal í fljótið. Að sögn formanns Veiðifélags Lagarfljóts vissu menn að Jökla myndi hafa áhrif á lífríki fljótsins en það kemur veiðibændum verulega á óvart hversu gruggugt fljótið er orðið. Samkvæmt mælingum er skyggni nú 17 sentimetra þar sem það var 60 sentimetra fyrir tíma virkjunarinnar. Gruggið er ekki bara talið hafa neikvæð áhrif á fæðu fisksins heldur líka á gengd hans upp fljótið.

Jósef Valgarð Þorvaldsson, formaður Veiðifélags Lagarfljóts, segir að með tilkomu gruggsins úr Jökulsá á Dal virðist gengdin hafa minnkað og jafnvel hafi tekið fyrir hana. Fiskurinn sé aðeins magrari.

Þrír silungsstofnar eru staðbundir í Lagarfljóti en einnig hefur sjógenginn fiskur fundist í fljótinu. Í fljótið renna sjö stórar veiðiár og breytingarnar í fljótinu hafa því einnig áhrif á veiðina þar því fiskur úr fljótinu gengur upp árnar til þess að hrygna. Gruggið í fljótinu hefur valdið því að það er minni fæða fyrir fiskinn og óttast er að fiskurinn lifi þessar breytingar ekki af. Jósef Valgarð segir að eina ráðið sem þeir kunni sé að skila Jöklu til síns heima.