Hættum að líta á fegurð sem lúxus

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Hilmar Kári Hallbjörnsson

Hættum að líta á fegurð sem lúxus

19.10.2018 - 11:46

Höfundar

„Fegurð er það sem við upplifum þegar við skynjum bara til að skynja; lítum til himins til að dást að honum en ekki til að gá til veðurs, eða horfum á fossinn til að leyfa honum að fanga okkur en ekki til þess að reikna út hversu stóra virkjun þyrfti til að fanga aflið í honum.“ Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, pistlahöfundur Víðsjár, fjallar um fagurfræði og samfélagslegt gildi fegurðar.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar:

Ég endaði síðasta pistil minn á þeirri hugsun að orðið landslag vísaði til þess þegar við skynjum umhverfi fagurferðilega. Og ég lofaði að segja ykkur nánar frá því hvaða skilning ég legg í orðin fegurð, fagurferði og hið fagurferðilega. Þegar ég byrjaði að rannsaka gildi landslags í samhengi ákvarðanatökuferla í umhverfismálum kom ég inn í orðræðu sem þá þegar var til staðar, orðræðu þar sem talað var um gildi landslags sem fagurfræðilegt og sjónrænt gildi. En þegar ég leyfði reynslu minni og annarra að kenna mér hverskonar gildi landslag hefði fann ég að gildið var í fyrsta lagi alls ekki bara sjónrænt, og það er alls ekkert fræðilegt heldur við þá upplifun sem skapar gildi landslags.

Þannig að þýðingin fagurfræðilegt á orðinu aesthetic sem á rætur í gríska orðinu aisthesis og vísar beint til skynjunar, fór alltaf örlítið í taugarnar á mér. Þegar ég heyrði svo af notkun Njarðar Sigurjónssonar, dósents við Háskólann á Bifröst, á orðinu fagurferði sem fyrirbærisins sem fræðigreinin fagurfræði fjallar um, fannst mér upplagt að taka þessa orðanotkun upp. Fagurferði og fagurferðileg gildi eru þá viðfangsefni fagurfræðinnar rétt eins og siðferði og siðferðileg gildi eru viðfangsefni siðfræðinnar. Og fagurferði vísar þá til mats okkar á fegurð og ljótleika (og alls þess á milli) rétt eins og siðferði vísar til mats okkar á góðri og slæmri breytni.

Ég held að með því að nota þessi orð, fagurferði og fagurferðilegt gildi, getum við víkkað út orðræðuna um það sem var á tímabili kallað fagurfræðilegt og sjónrænt gildi landslags. Eftir 2. áfanga Rammaáætlunar benti Faghópur 1 á að þörf væri á frekari rannsóknum og mati á því sem var þá kallað fagurfræðilegt, upplifunar og tilfinningalegt gildi landslags. Þarna er tilraun gerð til að víkka út fyrri skilning þar sem megináherslan var á því sjónræna. Hér er áhersla komin á þá hlið gildisins sem hefur að gera með fagurfræði, og merking þess fagurfræðilega er á vissan hátt útskýrð eða undirstrikuð með því að bæta við orðunum upplifunar og tilfinningalegt gildi. Í mínum huga gerir orðanotkunin fagurferðilegt gildi landslags í raun það sama og orðaröðin fagurfræðilegt, upplifunar og tilfinningalegt gildi; þessi orð gera okkur öll kleift að fanga það hvernig landslag hefur ekki bara að gera með sjónræna fegurð yfirborðsins heldur einnig með upplifun okkar að gera og þær tilfinningar og tengsl sem upplifunin kallar fram.

En það sem auðveldaði mér líka að víkka út skilning minn á fagurfræði, fagurferði og hinu fagurferðilega, var nýr skilningur minn á hugtakinu fegurð – en íslenska þýðingin fagurfræði á enskunni aesthetics sem eins og áður sagði vísar til skynjunar, gefur einmitt til kynna hversu stórt hlutverk hugtakið fegurð hlýtur að leika sem viðfangsefni fagurfræðinnar.

En hvað er fegurð? Er ekki furðulegt að spyrja að því? Vitum við ekki öll hvað fegurð er? Ástæðan fyrir því að ég spurði þessarar spurningar var sú að þegar ég var byrjuð að reyna að skilja hvað landslag er gerði ég mér fljótt grein fyrir að til þess að skilja landslag yrði ég fyrst að skilja hvað fegurð er, fyrst og fremst vegna þess hversu nátengd þessi hugtök eru í því hvernig við notum þau, en einnig vegna þess hvernig bæði hugtökin virðast vísa í einhverskonar samtvinnun þess huglæga og hlutlæga.

Og hvað er þá fegurð? Við notum orðið fegurð við fjölbreyttar aðstæður; hér er fallegt útsýni, sólsetrið er fallegt, tónverkið er fallegt, eldgosið er fallegt, hönnunin er falleg, þetta var fallega hugsað, augnablikið er fallegt, þetta var fallega gert. En hvað meinum við þegar við höldum því fram að eitthvað sé fallegt?

Flestum dettur kannski fyrst í hug, ja, hverjum þykir sinn fugl fagur, fegurð er smekksatriði; það sem mér finnst fallegt finnst öðrum kannski ljótt, að fegurð sé huglæg. Sumum dettur ef til vill í hug að fegurð sé falin í ákveðnum eiginleikum hluta, rétta forminu, til dæmis gullinsniði, að hún sé í hlutnum. Allar þessar hugmyndir um fegurð eiga rætur sínar að rekja til vestrænnar hugmyndasögu og ef til vill er eitthvað við fegurðina sem kallar á þessar hugmyndir. Fegurðin virðist á einhvern hátt afstæð eða huglæg; hún er persónuleg, tilfinningaleg og oft á tíðum djúp reynsla sem snertir við innsta kjarna okkar. En hún virðist líka á einhvern hátt hlutlæg, því það eru sannarlega eiginleikar „þarna úti“ í hlutunum sem framkalla þetta viðbragð í okkur. Þennan vanda hafa heimspekingar lengi reynt að skýra, en þrátt fyrir að þeim hafi sumum tekist að varpa ljósi á hvernig fegurðin er bæði huglæg og hlutlæg hefur það ljós ekki náð að skína á almennar hugmyndir okkar um fegurð sem eru enn oftast litaðar af þeirri hugsun að hún sé annaðhvort eða, í hlutnum eða í huga hvers og eins. Þessi aðgreining birtist svo á sama hátt í skilningi á landslagshugtakinu. Vísar það bara til hins efniskennda landslags eða líka til skynjunar og upplifunar þeirra sem dvelja í því?

En ef við höldum okkur við söguna af fegurð þá hefur þessi aðgreining haft mikil áhrif á þá þróun að fegurð var á löngu tímabili smátt og smátt sett til hliðar í vestrænum hugmyndaheimi. Segja má að viðhorfið að fegurð sé huglæg og afstæð hafi orðið ofan á, ekki síst vegna tengingar fegurðar við kvenleika, líkamleika og tilfinningar í vestrænum hugsunarhætti sem byggir á tvíhyggju hugar og líkama.

Af þessum ástæðum og öðrum var fegurðin sett út á jaðarinn í fagurfræði 20. aldar, hún þótti ekki lengur áhugaverð og ekki nógu stórt hugtak til að geta gagnast til að skilja það sem var til dæmis að gerast í samtímalist þar sem markmiðið var ekki lengur að skapa fagra eftirmynd af veruleikanum heldur frekar að hjálpa okkur að sjá hluti og veruleika í nýju og athyglisverðu ljósi. Þótt fegurðin hafi verið endurvakin að einhverju leyti innan heimspekilegrar fagurfræði er hún enn í almennri umræðu jaðarsett á þann hátt að hún er smættuð niður í útlitsdýrkun og skilin sem yfirborðsútlit sem við eigum öll að vera upptekin af. Þessi smættun leiðir til þess að hugmyndum okkar um hvað telst til dæmis fallegur líkami eru settar skorður og við gleymum fegurðinni sem felst í fjölbreytileikanum.

Fegurð er miklu dýpri en yfirborðsútlit; hún kemur innan frá, teygir sig út og skapar tengsl (eða gerir okkur meðvituð um þau). Í raun hefur fegurð – sem þessi reynsla sem ég er að reyna að lýsa, reynsla sem á þátt í að gera okkur mennsk og gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar lífsgæði okkar – yfirleitt ekki verið til umræðu í samfélaginu. Fegurð er gjarnan afgreidd sem persónuleg og afstæð og því sé ekkert meira hægt að segja um hana í samfélagi þar sem allt þarf að vera hlutlægt og mælanlegt til að það skipti máli. En hvað er þá fegurð ef við reynum að stíga út fyrir vestræna hugmyndarammann sem krefst þess að allt sé annaðhvort huglægt eða hlutlægt og rýnum í aðrar og dýpri hliðar fegurðarinnar?

Samkvæmt fyrirbærafræðilegum skilningi á fegurð hefst fegurðaraugnablikið þegar skilningarvit þín eru skyndilega gripin og virkjuð; þegar þér finnst þú sökkva inn í það sem þú ert að skynja, öll mörk mást út og þú skynjar tengsl, þig sem tengslaveru. Þú tekur á móti áhrifum og merkingu í stað þess að varpa fyrirframákveðinni merkingu á það sem þú skynjar. Fegurð er það sem við upplifum þegar við skynjum bara til að skynja; lítum til himins til að dást að honum en ekki til að gá til veðurs, eða horfum á fossinn til að leyfa honum að fanga okkur en ekki til þess að reikna út hversu stóra virkjun þyrfti til að fanga aflið í honum.

Fegurðin er þetta augnablik sem öll list hlýtur að leitast við að skapa, augnablikið þar sem við öðlumst einhverskonar opnun sem hjálpar okkur að sjá hluti og veruleika í nýju og athyglisverðu ljósi. Fegurðin felst ekki bara í forminu sem við skynjum heldur í því hvernig við mætum þessu formi (hverskyns form sem það er) og verðum opinn fyrir því að taka á móti merkingu; láta ytri skynjun enduróma innra með okkur og finna merkinguna sem verður til í þessu samspili.

Fegurð hefur aðdráttarafl; hún dregur okkur að sér og skapar löngun til að dvelja við fegurðina, viðhalda henni og jafnvel deila henni með öðrum. Hver kannast ekki við þá tilfinningu að upplifa eitthvað fallegt og finna sig knúinn til þess að hnippa í næstu manneskju og benda henni á það? Eða að finna til löngunar til þess að taka ljósmynd, teikna mynd, skapa tónverk, skrifa ljóð eða einfaldlega stara lengi – þarfar til þess að fanga fegurðaraugnablikið, skapa úr því nýja fegurð og þannig halda fegurðinni áfram á einhvern hátt? Það er einhver næring í fegurð sem hvetur mann til þess að endurgjalda greiðann – vernda og næra fegurðina svo hún geti haldið áfram að næra fleiri.

Fegurðarupplifun gerir okkur kleift að upplifa þann kjarna mennskunnar sem virðist stundum gleymast í daglegu amstri og áreiti nútímasamfélaga: Við gleymum að taka eftir því að við erum tengslaverur og verðum sífellt fyrir áhrifum af umhverfi okkar um leið og við höfum áhrif á það. Upplifun af fegurð opnar okkur fyrir þeirri hugsun að það sé heimur fyrir utan okkur sjálf; heimur sem við deilum með öðrum. Fegurðarupplifun getur þannig afhjúpað fyrir okkur þau órjúfanlegu og margslungnu tengsl sem við eigum hvert við annað og við jörðina sem við byggjum.

Fegurð hefst á einfaldri skynjun, að vera gripin af einhverju, verða hugfangin, en þegar öllu er á botninn hvolft er hún miklu meira en það. Fegurð æfir okkur í því að setja sjálfið til hliðar og veitir okkur tækifæri til einskonar af-miðjunar sjálfsins. Þessi afmiðjun veitir okkur ánægju, þannig að sú eða sá sem hefur einu sinni verið gripin og snortin af fegurð eru líkleg til þess að leitast við að upplifa það aftur. Þannig verður fegurðarskynið að hæfileika sem mótast og þróast með reynslu hvers og eins.

Í þessu samhengi ber okkur að leggja áherslu á fagurferðilegt uppeldi eins og við leggjum áherslu á siðferðilegt uppeldi. Fegurð er ekki bara uppspretta ánægju og hluti af hamingju okkar. Fegurð getur hjálpað okkur að þróa með okkur dýpri siðferðisvitund og skapa betri samfélög. Því fleiri tækifæri sem við sköpum sem samfélag til þess að upplifa fegurð í daglegu borgar-, bæjar-, skóla- og vinnu- umhverfi okkar, í náttúrunni, í listasöfnum, leikhúsum og tónlistarhöllum, því meiri lífsgæði og hamingju sköpum við. Fegurð eykur ekki einungis vellíðan og ánægju; hún gerir okkur mennsk, því hún hjálpar okkur að skilja okkur sjálf og hvað felst í því að vera mannvera í tengslum við umhverfi sitt og aðrar tengslaverur.

Niðurstaða þessara hugleiðinga um fegurð, hlýtur að vera sú ráðlegging til okkar allra, að lyfta fegurðinni og umræðu um hana á hærra plan. Hættum að líta á fegurðina sem tabú, eins og aðrar tilfinningar sem við ræðum aldrei í alvöru. Hættum að líta á hana sem aukaafurð eða lúxus sem aðeins er hægt að veita sér þegar grunnþörfum hefur verið fullnægt. Hættum að líta á hana sem söluafurð sem við seljum túristum. Hættum að líta á hana sem söluafurð sem við seljum fólki sem er djúpt sokkið í útlits- og yfirborðsdýrkun neyslusamfélagsins. Hefjum frekar fegurðina upp á þann stall sem hún á skilið og leggjum áherslu á það mikilvæga hlutverk sem hún leikur í skynjun okkar á veruleikanum, þekkingu okkar, gildum, líðan okkar og lífsgæðum.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Landslag er ekki bara efni