Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hættulegt fjall sem ekki allir eigi erindi á

19.09.2018 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kirkjufell hefur á skömmum tíma orðið einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og um leið eitt mest myndaða fjall landsins. Erlendur ferðamaður hrapaði í fjallinu í gær og lést en það er annað banaslysið í fjallinu á rúmu ári. Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, segir að umferð upp fjallið hafi aukist mjög mikið á skömmum tíma en þangað eigi ekki allir erindi. Fjallið sé skilgreint sem hættulegt í öryggiskorti Svæðisgarðsins Snæfellsness.

Grundfirðingurinn Kári Gunnarsson er þaulkunnugur fjallinu en þar smalar hann og gengur nokkrum sinnum á sumri, stundum með hópa. Hann segir margt að varast.  

„Ef ég hef verið að ganga með fólk þá bið ég það um að vera ekki með göngustafi vegna þess að þú þarft á mörgum stöðum að vera með aðra höndina á klettabrúninni, þú hefur ekkert til að styðja þig við hinum megin. Það er bara niður eða ekkert. Þannig að þú þarft alltaf að vera með höndina, og halla þér upp í brekkuna og vera var um þig hvað þú ert að gera. Ef þú stoppar og lítur snöggt út undan þér þá er bara það bratt niður að margir missa fjarlægðarskynið og einfaldlega halla sér bara í vitlausa átt.“

Kári segir að fjöldi þeirra sem ganga á fjallið hafi stóraukist á síðustu þremur árum. Ein fær gönguleið er upp á topp og þar hefur verið fest reipi á nokkrum stöðum. Kári segir að fjallið geti verið hættulegt þeim sem ekki þekki til og auðvelt að villast eftir röngum slóða. Þá geti aðstæður breyst hratt til hins verra í bleytu. Á þessum árstíma sé allt blautt, stígar eitt drullusvað þar sem þeir eru verstir og jarðvegurinn lausari í sér og því ekkert hald í neinu.  

Grundarfjörður fyrirtæka atvinna Grundarfjörður fyrirtæka atvinna
 Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes

Kári telur að bæta þurfi upplýsingagjöf við fjallið. „Þar sem þú byrjar að ganga á fjallið eru náttúrlega margir stígar og það þýðir ekkert að setja upp tíu eins skilti út um allt. Það þarf náttúrlega að stýra umferð mikið betur upp heldur en er búið að gera. Þetta er búið að vera villta vestrið, fólk fer bara þarna upp og niður hvenær sem það langar til.“

Slóði myndast í fjallinu á skömmum tíma

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, tekur undir að Kirkjufell og Kirkjufellsfoss hafi orðið geysilega vinsæll áningarstaður ferðamanna á mjög skömmum tíma.„Það er enginn slóði eða stígur á fjallið en við getum sagt að síðasta eina árið, ég fór þarna í morgun tók myndir, og þá sér maður að það hefur myndast slóði þarna upp og það segir til um umferðina. Þessi slóði var ekki sýnilegur með sama hætti fyrir einu og hálfu ári, upp fellið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Grundarfjarðarbær

Svæðið er á landi í einkaeigu og landeigendur hafi fengið þessa auknu aðsókn óvænt í fangið. Sveitarfélagið og landeigendur hafi unnið saman að því að koma upp aðstöðu og bæta hana. Meðal annars hafi verið sótt um í framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að bregðast við. Fjármagn hafi fengist til að útbúa bílastæði fyrir fjórum árum, rétt við Kirkjufellsfoss en þangað fer stærstur hluti ferðamanna til að ná mynd af fossinum og fjallinu. Björg segir að bílastæðið anni ekki lengur aðsókninni og fékk sveitarfélagið fjármagn á þessu ári til að leggja annað bílastæði aðeins vestar og verður hitt þá tekin úr notkun. Aukinn ferðamannastraumur að fossinum veki athygli á fjallinu og im leið hvarfli ef til vill hugur fólks að því að ganga á fjallið. Þangað eigi ekki allir erindi. 

Hættur á svæðinu verið kortlagðar

„Að setja upp eitt skilti er í sjálfu sér ekki vandaverk. Það þarf að útbúa það og það þarf að setja það upp. Hins vegar verðum við að spyrja okkur: Þarna er á örskömmum tíma orðin til leið sem hinn almenni ferðamaður telur sig eiga erindi á en það er alls ekki svo. Þá verðum við að velta fyrir okkur, hvaðan koma þessi skilaboð? Ísland er hættulegt land, hér er fullt af fjöllum og öðrum náttúrufyrirbærum sem eru bráðhættuleg og við reynum eftir bestu getu, ferðaþjónusta og við í það heila, verið dugleg við að gæta að öryggi ferðamanna, sérstaklega síðustu örfá misseri og ár. Á okkar svæði hefur ferðaþjónusta og sveitarfélög með sér samstarf í Svæðisgarðinum Snæfellsnesi og þar höfum við gengið mjög langt í því að kortleggja hættur og þar hafa verið sett upp upplýsingaskilti víða þar sem ferðamenn eiga erindi þar sem varað er við hættulegum stöðum. Þetta eru upplýsingar sem fólk á upplýsingamiðstöðum víðsvegar um Snæfellsnesi er vant að gefa. Ferðamenn eiga ekki almennt erindi þarna upp. Þetta er hættulegt fjall og fólk þarf að vera sérstaklega vel til þess búið að fara þarna upp. Þannig að núna er þá spurningin, er þetta ekki nóg? Þarf að setja upp eitt skilti. Það er þá eitthvað sem þarf að skoða núna og ég veit, því ég á mjög samband við landeigendur, að það er verið að skoða það. En þetta er hinsvegar ekki leið sem fólk hefur átt að eiga aðgengi að.“

Kirkjufell skilgreint sem hættulegur staður

Á öryggiskorti sem Björg vísar til, og unnið var í samvinnu við Safetravel,  eru áfangastaðir á Snæfellsnesi flokkaðir í þrjá flokka; staði sem eru tilbúnir til að taka á móti fólki, staði sem eru ekki alveg tilbúnir og í þriðja flokknum eru hættulegir staðir.  
 
„Og þar eru nokkrir staðir merktir sérstaklega og flokkunin á Kirkjufelli er þannig að það er rauð merking sem þýðir að þetta er afar hættulegur staður til þess að fara á og þá erum við að tala um uppgönguna á Kirkjufellið af því að við vitum og finnum að það er mikil eftirspurn og það hefur aukist mikið, ásókn fólks í að fara,“ segir Björg.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV