Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hættu við 15 milljarða kröfu á Jón Ásgeir

26.06.2013 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Skiptastjóri Baugs hefur dregið til baka skaðabótamál sem höfðað var gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi stjórnarformanni fyrirtækisins. Málið var höfðað til að sækja 15 milljarða króna skaðabætur vegna viðskipta Baugs skömmu fyrir hrun.

Skiptastjóri Baugs höfðaði mál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyn, og krafðist fimmtán milljarða króna í skaðabætur. Sú krafa er vegna viðskipta þar sem Baugur var látinn kaupa hlutabréf í sjálfum sér af Jóni Ásgeiri og fjölskyldu hans, skömmu fyrir hrun. Hlutabréfin reyndust síðar vera verðlaus og vildi Erlendur Gíslason skiptastjóri að þrotabú Baugs fengi það bætt.

Jón Ásgeir vísaði þeirri kröfu á bug og sagði að í raun væru það hluthafarnir sjálfir sem hefðu tapað mestu á viðskiptunum en ekki þrotabúið, því hluthafarnir hefðu gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir láni sem Kaupþing veitti fyrir viðskiptin. Viðskiptin sjálf voru að frumkvæði Kaupþings.

Málshöfðunin gegn Jóni Ásgeiri var dregin til baka í morgun. Það er vegna þess að í nóvember síðastliðnum var máli þrotabúsins gegn þremur erlendum tryggingafélögum vísað frá dómi. Þau félög höfðu öll selt Baugi stjórnendatryggingar sem áttu að bæta hugsanlegt tjón sem stjórnendur kynnu að vera ábyrgir fyrir. Ekki þótti fært að höfða mál í Bretlandi gegn félögunum, og ljóst þótti að litlar bætur yrðu sóttar til Jóns Ásgeirs. Hann hefur lýst því yfir að hann sé eignalítill og skilað um það gögnum til hérlendra og erlendra yfirvalda. Þrotabúið Baugs hefur einnig krafist bóta af þrotabúi Kaupþings en það mál hefur ekki verið útkljáð.

[email protected]