Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hættir eftir 40 ár sem oddviti

Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Valgarður Hilmarsson sveitarstjóri á Blönduósi, sem setið hefur í tæp 40 ár sem oddviti í sveitarstjórnum, hættir í pólitík eftir þetta kjörtímabil. Yfirfærsla grunnskólanna og málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, segir hann stærstu verkefnin á ferlinum. Hann vill sjá frekari sameiningu sveitarfélaga.

Valgarður settist fyrst í sveitarstjórn Engihlíðarhrepps árið 1974, þá einn af yngstu sveitarstjórnarmönnum landsins. Hreppurinn sameinaðist Blönduósbæ árið 2002. Allan þennan tíma hefur Valgarður setið í sveitarstjórn ef frá er talið síðasta kjörtímabil. 

Aðeins verið í minnihluta í 38 daga

„Ég hef verið oddviti í sveitarfélagi allan þennan tíma, nema 38 daga, þá lentum við í minnihluta," segir Valgarður. En hann hefur einnig starfað að sveitarstjórnarmálum á landsvísu. Hann var 12 ár í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og 20 ár í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs. Valgarður varð sjötugur í ár og segir að nú sé kominn tími til að hætta. „Mér finnst að þegar menn eru komnir á þennan aldur, þá sé alveg aðlilegt að fara að slaka sér út úr þessu."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Eitt af síðustu embættisverkunum var fyrsta skóflustunga að gagnaveri á Blönduósi

Grunnskólinn og málefni fatlaðra stærstu verkefnin

Og hann segir gríðarlegar breytingar hafa orðið á öllum þessum tíma. Sveitarfélögunum hafi fækkað um helming og verkefnin séu gerólík frá því sem var. „Og þar á meðal þegar grunnskólinn var færður yfir. Og svo náttúrulega núna fyrir stuttu síðan, málefni fatlaðra. Þetta eru stærstu verkefnin að mínu mati sem hafa gerbreytt öllu umhverfi hjá sveitarfélögunum." 

Hlynntur frekari sameiningum sveitarfélaga

Og Valgarður segir nauðsynlegt að ráðast í frekari sameiningar sveitarfélaga. „Þegar verkefnin eru orðin svona stór og viðamikil, þá verða náttúrulega að verða breytingar á sveitarfélagamynstinu til þess bara að takast á við þessi verkefni. Þetta er flókið, erfitt og þungt kerfi. Og bara miðað við allar þær breytingar sem hafa orðið í samgöngum og fjarskiptum og öllu þessu, að þá erum við bara á öðrum tíma í annarri stöðu," segir hann.

Dugir ekkert hálfkák í sveitarstjórn

Og hann á mörg góð ráð handa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í sveitarstjórnarmálum. „Það er náttúrulega bara að setja sig vel ofan í málin og reyna að skilgreina þarfir viðkomandi svæðis. Og takast svo á við þau verkefni sem brýnust eru á hverju svæði fyrir sig. Leggja sig allan fram, það þýðir ekkert annað. Það dugir ekkert hálfkák í þessu,“ segir Valgarður.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV