Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hættir á lista en ætlar samt að kjósa hann

Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirkjörstjórn hefur hafnað beiðni Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að fá að taka Jón Jósef Bjarnason, fyrrverandi oddvita hreyfingarinnar, af listanum. Hann skipar annað sæti listans. Jón vildi fara af listanum þar sem hann er óánægður með stefnu hreyfingarinnar.

Jón Jósef hefur verið bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar frá 2010. Sigrún Pálsdóttir leiðir listann núna og átti Jón Jósef að vera í öðru sæti. Jón sagðist í samtali við fréttastofu hafa beðið um að nafn hans yrði tekið af listanum áður en þeir voru sendir inn. Það hafi ekki verið gert. 

Jón segir þetta ekki óþægilega stöðu fyrir sig - hann ætli að kjósa Íbúahreyfinguna í kosningunum í vor en ætlar ekki að taka þátt í starfinu á vettvangi bæjarstjórnar ef sú staða kæmi upp.

Hann segist vera verulega ósáttur við þá stefnu sem Íbúahreyfingin hafi tekið - það sé ástæðan fyrir því að hann vilji ekki vera með á listanum núna.

 

ATH: Birta Jóhannesdóttir, sem skipar fjórða sæti á lista Íbúahreyfingarinnar, segir það ekki rétt að Jón hafi beðið um að láta taka sig af listanum áður en þeir voru sendir inn. Hann hafi skrifað undir yfirlýsingu um framboð 8.maí og framboðslistum hafi síðan verið skilað 10.maí. Ósk Jóns um að hætta við að taka sæti á lista hafi komið fram 14.maí.