Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hætti að styðja viðskiptabann gegn Rússum

01.08.2015 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ísland eigi að hætta að styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússlandi, vegna hugsanlegs innflutningsbanns Rússa. Utanríkisráðherra segir málið á misskilningi byggt.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir í Facebook-færslu að Íslendingar ættu að taka sig af lista yfir þjóðir sem styðja viðskiptabann á Rússa. Ásmundur bendir á að miklir hagsmunir séu í húfi, rússneski markaðurinn sé gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskar sjávarafurðir. Hann segir ennfremur að Íslendingar eigi í engum „prívat" útistöðum við Rússa. Hann segir hagsmuni Íslendinga liggja í því að halda friði við þær þjóðir sem kaupi af okkur útflutningsvörur, hverjar svo sem þær þjóðir kunni að vera. „Við eigum ekkert að vera að taka þátt í þessum viðskiptabönnum sem Evrópusambandið eða þessar bandalagsþjóðir okkar í Evrópu eru að setja á lönd sem við erum í viðskiptum við,“ segir Ásmundur í samtali við fréttastofu. „Mér finnst að hagsmunir okkar þurfi að vera í fyrirrúmi. Rússar hafa verið og eru gríðarlega mikilvægir viðskiptavinir Íslendinga.“

Hann segist þó ekki styðja aðgerðir Rússa, meðal annars í Úkraínu. „Ég er ekkert með því að taka undir eða samþykkja það sem Rússar eru að gera af sér í Úkraínu eða öðrum löndum. Ég held að hvorki Rússar eða bandalagsþjóðir okkar í Evrópu séu saklausar af allskonar hernaðarbrölti,“ segir Ásmundur. En óttast hann ekki að það verði þá túlkað sem einhvers konar stuðningur, ef við myndum taka okkur af þessum lista? „Það má vel vera, ég fæ voðalega mikil viðbrögð við því á Facebook, að fólki finnist það, ég held bara að okkar hagsmunir liggi í því bara að halda friði við þær þjóðir sem við eigum í góðum viðskiptum við,“ segir Ásmundur.

Rússar bíða átekta

Evrópusambandið birti á dögunum tilkynningu um áframhaldandi viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi vegna stöðunnar í austurhluta Úkraínu. Íslensk stjórnvöld styðja þessar aðgerðir og hafa gert það frá upphafi. Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, sem á í miklum viðskiptum við Rússland, segir rússnesk yfirvöld bíða svara frá íslenskum stjórnvöldum. „Núna bíða Rússar, rússnesk stjórnvöld í raun og veru eftir því hvort að Ísland bregst við þessari fréttatilkynningu eða ekki, og framhaldið ræðst af því.“

Ekki nýjar aðgerðir

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir enga ástæðu til að bregðast við nú, ekkert hafi breyst frá því viðskiptaþvinganir voru fyrst settar á í fyrra. „Mér sýnist að þetta sé fyrst og fremst svona misskilningur jafnvel, vegna þess að það er ekki um neinar nýjar þvinganir að ræða, það er sem sagt verið að framlengja þær þvinganir sem voru í gildi,“ segir Gunnar Bragi. „En það breytir því ekki að við erum þátttakendur í þessu og ástæðuna þekkja allir, það varðar alþjóðalög og alþjóðareglur.“

Tökum okkur af lista yfir þjóðir sem vilja viðskiptabann á Rússa.Nú velta Rússar því fyrir sér að hætta að kaupa vörur...

Posted by Ásmundur Friðriksson on Friday, July 31, 2015