Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hætta við að kljúfa skólann í tvennt

22.04.2014 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfshópur um breytt skipulag í Hallormsstaðarskóla leggur til að hætt verði við áform um að aka elstu nemendum skólans til Egilsstaða. Aðrar leiðir verði farnar í sparnaði en fyrri starfshópur lagði til.

Nýi starfshópurinn sem í sitja meðal annars skólastjórar Hallormsstaðarskóla og Egilsstaðaskóla átti að útfæra svokallaða leið 2 sem var ein af tillögum fyrri starfshóps og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps höfðu valið. Nýi starfshópurinn telur hinsvegar við nánari skoðun að óverulegir eða engir fjármunir sparist við að keyra 9. og 10. bekk til Egilsstaða alla daga. Þess í stað leggur hópurinn til að öllum nemendum á Hallormsstað verði kennt á Egilsstöðum einn og hálfan dag í viku. Þannig verði áfram hægt að bjóða upp á nám fyrir 1.-10. bekk í Hallormsstaðarskóla. 

Íþróttir og verkgreinar kenndar á Egilsstöðum

Starfshópurinn telur að minnka mætti verulega það húsnæði sem fer undir skólastarfið á Hallormsstað ekki síst ef hefðbundin sund- og íþróttakennsla flyst í Egilsstaði. Þannig mætti aka öllum nemendum skólans til Egilsstaða á þriðjudögum í íþróttir, verkgreinar og val. Þar taki nemendur frá Hallormsstað einnig þátt í bóklegum tímum. Nemendum verði einnig keyrt til Egilsstaða eftir hádegi á fimmtudögum í sund og fleira. Félagsstarf verði áfram á Hallormsstað en einnig í samstarfi við Nýjung á Egilsstöðum. 

Skólinn verði deildi innan Egilsstaðaskóla með sjö starfsmenn. Þar starfi deildarstjóri sem einnig sinni kennslu. Þrír umsjónarkennarar einn fyrir yngra stig, annar fyrir eldra og sá þriðji til að tryggja breidd í námsframboði og sérkennslu. Þá verði þar skólaliði og stuðningsfulltrúi sem sinni stuðningi við nemendur, þrifum og gæslu. Á Hallormsstað hefur leikskólinn verið sameinaður grunnskólanum og leggur starfshópurinn ekki til breytingar á leikskóladeilinni; Þar starfi áfram einn leikskólakennari. 

Mötuneyti lagt niður

Hópurinn leggur einnig til að ekki verði starfrækt sérstakt mötuneyti í Hallormsstaðarskóla heldur verði matur aðkeyptur vegna þess hve nemendur skólans eru orðnir fáir. Gert er ráð fyrir um 20 nemendum í grunnskólanum á næsta skólaári og allt í allt með leikskóla og starfsmönnum verður fjöldinn tæplega 30.

Talsverður sparnaður og meiri sátt

Starfshópurinn telur að með þessari hagræðingu megi lækka kostnað um 31 milljón á ári en raunsparnaður gæti orðið 50 milljónir ef litið er til minni innri leigu vegna minni notkunar á húsnæði. Helga Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Fljótsdalshéraðs, á sæti í starfshópnum. Hún segir að hópurinn vonist til að með þessu verði meiri sátt um breytingarnar. Hefði elstu nemendum verið ekið til Egilsstaða hefðu systkyni orðið aðskila; annað systkynið farið í Egilsstaðskóla en hitt í Hallormsstaðarskóla. Með nýju útfærslunni sé tryggt að systkynahópurinn verði á sama stað. Tilagan hafi verið kynnt í skólasamfélaginu og fyrir foreldrum og meiri sátt sé um hana um hana en fyrri tillögu. Deildarstjóri hafi þegar verið ráðinn og næstu skref séu að ráða annað starfsfólk í samráði við deildarstjóra. „Vonandi verður þetta öllum til góðs þegar upp er staðið. Markmiðið er að tryggja gott skólastarf þrátt fyrir að nemendur séu orðnir fáir,“ segir Helga.