Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hætta flugi milli Keflavíkur og Akureyrar

14.02.2018 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Air Iceland Connect ætlar að hætta að bjóða upp á beint flug milli Akureyrar og Keflavíkur. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir þetta vonbrigði. Viðræður eru að hefjast við önnur flugfélög um að taka að sér tengiflugið. 

Í frétt á vef Túrista kemur fram að Air Iceland Connect ætli í maí að hætta að fljúga til og frá Bretlandi. Félagið hóf flug til Aberdeen í Skotlandi fyrir tveimur árum og í kjölfarið bættist við flug til Belfast. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir í samtali við Túrista að eftirspurn eftir Íslandsflugi frá Bretlandi hafi minnkað á sama tíma og framboðið hafi aukist. Þá hafi Brexit haft neikvæð áhrif á þróun mála. 

Eftirspurn ekki næg

Á sama tíma á að leggja niður tengiflug milli Akureyrar og Keflavíkur, en það hófst fyrir um það bil ári. Markmiðið með flugleiðinni var að auðvelda íbúum á Norðurlandi að nýta millilandaflug og að sama skapi að fá fleiri ferðamenn norður. Þetta hefur verið eina innanlandsflugið til og frá Keflavíkurflugvelli. Árni segir í samtali við Túrista að eftirspurn eftir fluginu hafi ekki verið næg og sætanýting lág. Ekki hafi tekist að fá erlenda ferðamenn til þess að nýta sér flugið í miklum mæli. 

Hefja strax viðræður við önnur flugfélög

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segist hafa heyrt af hnökrum í tengifluginu. Eins og RÚV fjallaði um í janúar hafa sumir farþegar lent í vandræðum þegar þeir nýta flugið. Þó segir Arnheiður að þetta séu vonbrigði, enda telur hún að hægt hefði verið að auka sætanýtinguna.

„Næsta skref hjá okkur er að leita annarra aðila sem eru tilbúnir í þetta verkefni og ég vona að það gangi fljótt og vel fyrir sig,“ segir Arnheiður. Hún segir að markaður sé fyrir þetta flug og mikill áhugi hjá erlendum ferðaskrifstofum. Viðræður séu að hefjast við innlend og erlend flugfélög og er Arnheiður bjartsýn á að þær skili árangri. „Þetta tengiflug er mjög mikilvægt fyrir okkur til þess að ná ferðamönnum út á land og þess vegna viljum við sjá það áfram,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands - RÚV

Þarf að bæta aðstöðu í Keflavík

Arnheiður bendir þó á að bæta þurfi aðstöðu í Keflavík ef tengiflugið eigi að ganga vel. „Aðstaðan hefur ekki verið fullnægjandi þannig að fólk hefur verið að lenda í vandræðum og ekki fengið að bíða í almennum biðsal og verið fast á milli ganga. Upplýsingaflæðið hefur heldur ekki verið nægilega gott. Þetta skaðar auðvitað umtalið um flugið, en þrátt fyrir það hefur verið ánægja með þetta flug,“ segir hún.