Svíar milligöngumenn
Mats Fogelmark er nú varnarmálafulltrúi Svía við sendiráð þeirra í Ósló, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Hann ræddi samband Svía við Norður-Kóreu og Kína á fundi í Norræna húsinu, sem sænska sendiráðið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóðu fyrir. Svíar hafa lengi verið milligöngumenn Norður-Kóreu og þjóða sem ekki hafa sendiráð í Pyuongyang. Þannig gætir sænska sendiráðið hagsmuna Bandaríkjanna.
Eins og tíminn hafi stöðvast 1970
Fogelmark kom fyrst til Norður-Kóreu fyrir tólf árum og segir að það hafi verið sérkennilegt og nánast fjarstæðukennt að sjá gamla Volvobíla í höfuðborginni Pyoungyang, þetta hafi minnt á Svíþjóð eins og að tíminn hefði verið stöðvaður 1970. Fogelmark segir að hann hafi ferðast talsvert um Norður-Kóreu og sveitir landsins megi bera saman við Svíþjóð 1870. Bændur yrki jörðina með handafli og aðeins einstaka traktora að sjá.
Úreltur tækjabúnaður
Norður-Kórea hefur varið mjög stórum hluta ríkisútgjalda til heraflans, en Fogelmark segir það sína skoðun að herinn sé að mörgu leyti búinn úreltum tækjum. Hann hafi verið öflugur í Kóreustríðinu, en hafi nú ekki mikinn árásarmátt.
Ekki víst að Norður-Kórea eigi kjarnavopn
Stór hluti hernaðarútgjalda hefur farið í uppbyggingu kjarnorkuvopna. Fogelmark segir að lítið sé vitað um kjarnorkuvopn Norður-Kóreumanna, ekki einu sinni hvort þeir eigi í rauninni slík vopn, þeir eigi hins vegar langdrægar eldflaugar, mikið meira sé ekki vitað.