Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hætta ekki við kjarnorkuvopn

12.11.2018 - 18:11
Mynd: EPA-EFE / KCNA
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, lætur líklega aldrei undan kröfum Bandaríkjastjórnar um kjarnorkuafvopnun. Þetta er skoðun Mats Fogelmarks, sem var varnarmálafulltrúi í sænska sendiráðinu í Pyoungyang og í Kína um þriggja ára skeið. Hann ræddi samband Svía við Norður-Kóreu og Kína á fundi í Norræna húsinu, sem sænska sendiráðið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóðu fyrir.

Svíar milligöngumenn

Mats Fogelmark er nú varnarmálafulltrúi Svía við sendiráð þeirra í Ósló, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Hann ræddi samband Svía við Norður-Kóreu og Kína á fundi í Norræna húsinu, sem sænska sendiráðið og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóðu fyrir. Svíar hafa lengi verið milligöngumenn Norður-Kóreu og þjóða sem ekki hafa sendiráð í Pyuongyang. Þannig gætir sænska sendiráðið hagsmuna Bandaríkjanna.

Eins og tíminn hafi stöðvast 1970

Fogelmark kom fyrst til Norður-Kóreu fyrir tólf árum og segir að það hafi verið sérkennilegt og nánast fjarstæðukennt að sjá gamla Volvobíla í höfuðborginni Pyoungyang, þetta hafi minnt á Svíþjóð eins og að tíminn hefði verið stöðvaður 1970. Fogelmark segir að hann hafi ferðast talsvert um Norður-Kóreu og sveitir landsins megi bera saman við Svíþjóð 1870. Bændur yrki jörðina með handafli og aðeins einstaka traktora að sjá. 

Úreltur tækjabúnaður 

Norður-Kórea hefur varið mjög stórum hluta ríkisútgjalda til heraflans, en Fogelmark segir það sína skoðun að herinn sé að mörgu leyti búinn úreltum tækjum. Hann hafi verið öflugur í Kóreustríðinu, en hafi nú ekki mikinn árásarmátt.

Ekki víst að Norður-Kórea eigi kjarnavopn

Stór hluti hernaðarútgjalda hefur farið í uppbyggingu kjarnorkuvopna. Fogelmark segir að lítið sé vitað um kjarnorkuvopn Norður-Kóreumanna, ekki einu sinni hvort þeir eigi í rauninni slík vopn, þeir eigi hins vegar langdrægar eldflaugar, mikið meira sé ekki vitað.

Mats Fogelmark, varnarmálafulltrúi sænska sendiráðsins, í viðtali um Norður-Kóreu
 Mynd: RÚV-Jón Þór Víglundsson - RÚV
Mats Fogelmark, varnarmálafulltrúi sænska sendiráðsins.

Lætur trauðla undan kröfum um kjarnorkuafvopnun

Fogelmark telur ekki að Kim Jong-un láti undan kröfum Bandaríkjamanna um kjarnorkuafvopnun, þau séu ásinn í erminni, en ítrekar að það sé ekki óyggjandi hvort þeir eigi slík vopn. Fogelmark segir og að hann hafi reynt að setja sig inn í hugsunarhátt Norður-Kóreumanna og að ef hann sjálfur væri hernaðarráðgjafi Norður-Kóreuleiðtogans yrðu það hans ráð að halda í slík vopn og langdrægar eldflaugar, án þeirra væri samningsstaðan engin.

Áhersla á menntun

Fogelmark segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu leggi áherslu á menntun, stærð- og eðlisfræðiþekking sé með ágætum. Tungumálakennsla sé góð, hann hafi hitt Norður-Kóreumann sem talaði ágæta sænsku þó að sá hinn sami hafi aldrei komið til Svíþjóðar.

Einangrað land og strangt eftirlit með upplýsingum

Norður-Kórea er eitt einangraðasta land veraldar og yfirvöld hafa strangt eftirlit með fjölmiðlum og stjórna öllum uppýsingum til landsmanna. Þó að landsmenn hafi margir ágæta menntun á sumum sviðum viti þeir aðeins það um önnur ríki og heimsmálin sem yfirvöld vilji að þeir viti. 

Vita það sem leyft er að vita

Maður veit það sem kennararnir segja þér, sagði Mats Fogelmark. Norður-Kórea er lokað samfélag þar sem stjórnvöld ráða hvað landsmenn fá að vita og hvað ekki. Fogelmark segir að í ferðum sínum hafi landsmenn verið forvitnir, en hann hafi aldrei skynjað neina andúð landsmanna eða óttast um öryggi sitt.

Kim Jong-un er ótvíræður leiðtogi

Fogelmark segir að fyrst eftir að Kim Jon-il, faðir núverandi leiðtoga, lést hafi staða sonarins Kim Jong-un verið ótrygg, en hann sé ótvíræður leiðtogi nú. Fogelmark segir að samkvæmt því litla sem hann viti virðist Norður-Kóreubúar tiltölulega ánægðir með sitt hlutskipti, hann hefði hins vegar sjálfur ekki mikinn áhuga á að búa í Pyongyang, kysi fremur heimaborg sína Stokkhólm.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV