Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hætta að taka við börnum í meðferð á Vogi

12.04.2018 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
SÁÁ hefur tekið þá ákvörðun um að hætta að taka við ungmennum yngri en átján ára á sjúkrahúsinu Vogi. Í tilkynningu frá SÁÁ segir að augljós krafa um að ólögráða einstaklingar séu ekki í sama rými og fullorðnir í meðferð, sé meira en hægt er að ráða við á Vogi.

Greint var frá því í fréttum í vikunni að eldri karlmaður væri grunaður um að hafa í tvígang brotið kynferðislega á sextán ára stúlku á Vogi. „Þetta er í kjölfarið á umræðu sem hefur verið undanfarið og er svo sem ekki ný af nálinni að börn eigi ekki að vera í húsnæði með fullorðnum í meðferð. Við höfum auðvitað sinnt þessum hópi sérstaklega og gert mikið til að halda sérstaklega utan um hann. En það er ekki ásættanlegt ef það dugar ekki til. Þá auðvitað munum við reyna að vinna að því að komast að annarri lausn,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. SÁÁ vilji taka ábyrgð á stöðunni og að sama skapi hafi þau áhyggjur af þeim stóra hópi ungmenna sem leiti til þeirra og þurfi á þjónustunni að halda. 

Í fréttatilkynningu frá SÁÁ segir að það að eitt barn hafi hugsanlega orðið fyrir skaða innan veggja spítalans sé einu barni of mikið. SÁÁ setji öryggi sjúklinga í fyrsta sæti og vilji með þessum aðgerðum axla ábyrgð.

Mynd með færslu
Valgerður Rúnarsdóttir. Mynd: RÚV

Samráðsfundur með heilbrigðisyfirvöldum er fyrirhugaður. Valgerður segir að SÁÁ muni áfram sinna þjónustu við börn yngri en átján ára þar til ný önnur úrræði verða sett á stofn, ekki ætti að skapast millibilsástand þangað til. „Við munum ekki svíkjast undan merkjum og sinna þeim áfram eins og ráðuneytið óskar eftir að við gerum í samráði við þau.“

Til greina kemur að SÁÁ sinni þjónustu við ungmenni áfram á öðrum stað, sem aðeins er fyrir þau. Ekkert er sé þó enn ákveðið um ráðstöfun þessara mála til framtíðar. Valgerður segir ýmsa möguleika í stöðunni. „Þessar meðferðir við fíknisjúkdómi, sem snúa að þessum hópi, eru sérhæfð þjónusta sem við erum með það og okkar þekking mun auðvitað nýtast og ætti að gera það í framtíðarverkefni.“ Valgerður segir ákvörðun SÁÁ gott skref sem hún vonar að verði til þess að bætt verði úr þjónustu við ungmenni yngri en 18 ára í fíknivanda.