Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hætta á brotlendingu ef krónan styrkist meira

14.12.2016 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Gengi krónunnar er þegar orðið sterkara en Seðlabankinn hafði spáð að það yrði á næsta ári. Hagfræðingar hafa áhyggjur af þessu, telja styrk krónunnar nálægt þolmörkum og að hætta geti verið á einhvers konar brotlendingu, með skarpri gengislækkun og verðbólguskoti.

Styrking krónunnar hefur verið mikil frá áramótum. Evran er nú rúmar 118 krónur og hefur lækkað um rúm 16%. Bandaríkjadollari er tæpar 112 krónur og hefur lækkað um tæp 14% og sterlingspundið er nú tæpar 142 krónur og hefur lækkað um 26%, mest vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Henný Hinz deildarstjóri hagdeildar ASÍ segir þetta hafa komið sér vel fyrir almenna neytendur. „Innfluttar hafa almennt heldur lækkað og haldið aftur af hækkun á vísitölu neysluverðs undanfarin misseri og það er auðvitað jákvætt.“

Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði tekur undir þetta. „Ef við hefðum ekki séð þessa styrkingu krónunnar þá værum við í töluvert hærri verðbólgu, við værum kannski í fimm til sex prósenta verðbólgu.“

Íslendingar finna misjafnlega fyrir þessari gengisþróun eftir því hvers konar vörur þeir eru að kaupa, til dæmis í jólainnkaupunum. Íslenskur konfektkassi kostaði til dæmis í fyrra 2.983 krónur, en kostar nú 3.098 krónur. Hann hefur hækkað um tæp 4%. Öðru máli gegnir hins vegar um innfluttan konfektkassa, sem kostaði í fyrra tæpar tvö þúsund krónur en núna tæpar 1.700 krónur, hefur semsagt lækkað um rúm 14%.

Óábyrgt að skila halla

Hin hliðin er svo tekjumissir fyr ir útflutningsatvinnugreinar eins og sjávarútveg, sem fá tekjur í erlendri mynt.  „Jafnvel ferðabransinn þolir ekki hvaða gengi sem er, og þá getur orðið viðsnúningur og hálfgerð brotlending. Það er auðvitað það sem við viljum síst af öllu,“ segir Friðrik Már.

Meðan ferðamenn streyma áfram til landsins er ólíklegt að krónan veikist í bráð. En Henný segir að einhvers staðar séu þolmörk fyrir styrk krónunnar. „Það er auðvitað erfitt að segja hvenær við erum komin þangað en ég held að við séum komin ansi nærri þeim. Staðan getur breyst hratt.“

Friðrik Már segir ríkisfjármálin skipta miklu máli fyrir framhaldið. „Jafnvel að skila jöfnuði, að ég tali nú ekki um halla, er afskaplega óábyrgt við þessari aðstæður og myndi ýta undir styrkingu gengisins, gera Seðlabankanum erfiðara að lækka vexti, og þetta gæti farið illa þegar yfir lýkur. Sögulega enda svona skeið í falli krónunnar, verðbólguskoti og svo framvegis.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV