Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hætt við mál gegn bankaráði – samið um kostnað

15.11.2018 - 11:12
Mynd með færslu
Kjartan Gunnarsson og Þorgeir Baldursson, fyrrverandi bankaráðsmenn í Landsbankanum, við upphaf aðalmeðferðar málsins 29. október. Mynd: Stígur Helgason - RÚV
Gamli Landsbankinn, LBI ehf., hefur fallið frá tugmilljarða skaðabótamáli á hendur fjórum fyrrverandi bankaráðsmönnum. Greint var frá þessu í réttarhöldunum á mánudag og upplýst að LBI og bankaráðsfólkið hefði samið um málskostnaðinn. Þá var upplýst að gerður hefði verið samningur við nokkur tryggingafélög um greiðslu milljarða. Máli gegn fjórum fyrrverandi stjórnendum bankans er enn haldið til streitu.

Málin sem um ræðir eru þrjú og hafa verið fyrir dómi í rúm sex ár. Þau eru rekin saman og aðalmeðferð hefur staðið yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur undanfarnar tvær og hálfa viku.

Niðurfellingarnar tvær ótengdar

Stærsta málið snýst um 35 milljarða sem runnu út úr Landsbankanum 6. október 2008 til Straums, MP banka og Landsvaka. Það var höfðað gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjórum bankans, Jóni Þorsteini Oddleifssyni, sem var yfirmaður fjárstýringar bankans, og fjórum bankaráðsmönnum: Kjartani Gunnarssyni, Þorgeiri Baldurssyni, Andra Sveinssyni og Svöfu Grönfeldt. Björgólfi Guðmundssyni, sem var formaður bankaráðsins, var ekki stefnt enda var hann þá orðinn gjaldþrota.

Eins og Morgunblaðið greinir frá í dag, og hefur eftir tilkynningu LBI, hefur málið gegn bankaráðinu nú verið fellt niður. 26 tryggingafélögum var jafnframt stefnt í málunum vegna innheimtu stjórnendatryggingar. Fram kemur í tilkynningunni að jafnframt hafi verið samið um niðurfellingu málsóknarinnar á hendur 24 af félögunum 26. Það sé ótengt niðurfellingu málsins á hendur bankaráðsfólkinu.

„Stóð ekki steinn yfir steini“ að mati lögmanns Svöfu

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Kristni Bjarnasyni, formanni slitastjórnar LBI hf., sem jafnframt rekur málið gegn stjórnendunum fyrir héraðsdómi. Ragnar H. Hall, lögmaður Svöfu Grönfeldt, segir hins vegar að upplýst hafi verið um niðurfellingarnar í réttarhöldunum á mánudag.

„Það hefur komið fram í aðalmeðferðinni, og menn sáu það – að minnsta kosti flestir – að það stóð ekki steinn yfir steini í kröfugerð á hendur bankaráðsmönnunum,“ segir Ragnar. „Mér fannst kristallast í skýrslutökum að þeir mundu aldrei ná fram neinum dómi á hendur bankaráðsmönnunum í þessu máli,“ segir hann.

Skúli dómari hvatti menn til að hugsa málið

Ragnar segir að á dögunum, eftir strangan törn af skýrslutökum fyrir dómi, hafi dómsformaðurinn Skúli Magnússon haft orð á því að það væri kannski ástæða fyrir stefnandann, LBI og Kristin, að skoða það betur hvort ástæða væri til að halda til streitu málinu gegn bankaráðsfólkinu.

Í kjölfarið hafi málsaðilar rætt saman og þetta hafi orðið niðurstaðan: Fallið hafi verið frá málinu og samkomulag gert um málskostnað. Efni þess að öðru leyti sé trúnaðarmál en ljóst sé að málskostnaður sé töluverður, enda málareksturinn staðið í sex ár. Spurður hvort í samkomulaginu felist að bankaráðsfólkið muni ekki fara í gagnaðgerðir gegn slitasjórninni fyrir dómi vegna málaferlanna ítrekar Ragnar að trúnaður ríki um efnið. Hann telji þó að Svafa hafi ekkert slíkt í huga þótt málaferlin hafi verið henni „hálfgerð prísund“.

Tryggingafélögin borguðu fjóra milljarða

Í tilkynningu LBI segir að efni samkomulagsins við tryggingafélögin 22 sé trúnaðarmál, en Ragnar segir að það hafi verið upplýst fyrir dómi á mánudag að félögin hafi samþykkt að borga 4,1 milljarð og kröfufjárhæðin í skaðabótamálunum hafi minnkað sem því nemi.

Félögin 22 voru á bak við tæplega 48% af stjórnendatryggingunni sem LBI hefur reynt að innheimta. Hin tvö félögin, sem enn er stefnt í málinu, voru á bak við rúm 52%.

Hætt við skýrslutökur af Geir og Davíð

Málin þrjú eru enn fyrir dómi. Það fyrsta er nú bara rekið gegn Sigurjóni, Halldóri, Jóni Þorsteini og tryggingafélögunum tveimur. Annað málið, sem snýst um 11 milljarða tjón sem Landsbankinn á að hafa orðið fyrir af lánveitingu til Straums í byrjun október 2008, er rekið gegn Sigurjóni og Halldóri. Það þriðja er gegn Sigurjóni, Halldóri og Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjasviðs bankans. Það varðar ætlað 16 milljarða tjón af skuld við fjárfestingafélagið Gretti.

Í tilkynningu LBI segir að áætlað sé að málarekstrinum fyrir dómi ljúki fyrir mánaðamót. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er hann þegar langt kominn. Á meðal þeirra sem voru á vitnalista voru Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri. Hugmyndin var að spyrja þá um neyðarlánveitinguna til Kaupþings en í ljósi þess að endurrit af símtali þeirra 6. október 2008 hafði birst opinberlega þótti ástæðulaust að taka skýrslu af þeim og því var hætt við það.