Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hætt að rukka eftir helgi

18.07.2014 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Væntanlega verður hætt að rukka ferðamenn á hverasvæðunum í Mývatnssveit strax eftir helgi. Tekist hefur að útvega 40 milljóna króna tryggingu sem krafa var gerð um áður en lögbannið tæki gildi. Þar með líkur gjaldheimtunni sem hefur staðið yfir í fjórar vikur. Rukkaðar hafa verið 800 krónur á mann.

Sýslumaðurinn á Húsavík féllst í gær á kröfu um lögbann á gjaldtökuna sem 7 af 17 eigendum Reykjahlíðarlandsins í Mývatnssveit lögðu fram. Þeir eiga 30 prósenta hlut í landinu. Gerðaþolendur eða meirihlutinn sem stendur að gjaldtökunni féllst ekki á lögbannið eins og gefur að skilja en krafðist þess ef til þess kæmi yrði gerð krafa 250 milljóna króna tryggingu.

 
Pétur Snæbjörnsson einn gerðarbeiðenda og hótelhaldari í Reynihlíð segir að málið snúist að hluta um framtíðarskipan ferðamála á Íslandi. Ferðaþjónusta hafi verið rekin í sveitinni í áratugi og ferðamenn hafi getað gengið um án þess að borga. Óskað hafi verið eftir meiri fjármunum til að halda við ferðamannastöðununum til að þeir geti áfram verið opnir og aðgengilegir ferðamönnum. Pétur segir að lykilatriðið sé að ákveða hverjir eigi að sjá um viðhald á ferðamannastöðunum. Hann sjálfur telur að það eigi að vera í höndum viðkomandi sveitarfélags. Í viðtali við Spegilinn viðrar hann meðal annars þá hugmynd að fjármunir sem ríkið noti í markaðskynningu erlendis verði jafnvel nýttir til að byggja upp ferðamannastaðina og að þeir sem reki ferðaþjónustuna sjái um markaðsmálin.