Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hæstiréttur Venesúela lætur undan þrýstingi

Mynd: APTN / APTN
Gríðarleg spenna hefur verið í Venesúela eftir að hæstaréttur landsins úrskurðaði að rétturinn megi taka að sér löggjafarhlutverk þingsins. Nicolas Maduro forseti hefur reynt að bera klæði á vopnin en fjölmenni hefur mótmælt ákvörðun hæstaréttar. Stjórnarandstæðingar líkja ákvörðun hæstaréttar við valdarán. Síðdegis var tilkynnt að hæstiréttur hefði látið undan þrýstingi og breytt ákvörðun sinni.

Gríðarlegar efnahagsþrengingar

Þrátefli er í stjórnmálalífi Venesúela þar sem gríðarlegar efnahagsþrengingar eru. Nicolas Maduro forseti á í miklum átökum við þingið en andstæðingar stjórnar hans náðu þar meirihluta í kosningum í desember 2015. Stuðningsmenn forsetans eru hins vegar í meirihluta í hæstarétti landsins og rétturinn samþykkti í vikunni að hann gæti gegn hlutverki þingsins. Mikil mótmæli brutust út og líktu stjórnarandstæðingar úrskurði hæstaréttar við valdarán. Maduro forseti gæti látið samþykkja lög án aðkomu þingsins.

Brestir í liði forsetans

Jafnvel hörðum stuðningsmönnum forsetans ofbauð og Luisa Ortega, ríkissaksóknari, gagnrýndi hæstarétt. Í gær bættist svo varaforsetinn í hópinn. Maduro forseti kom svo fram í sjónvarpi á miðnætti til að reyna að draga úr ólgunni. Hann sagði að finna yrði lausn á ágreiningnum, samræður og viljastyrkur og stjórnarskráin yrðu að sjá til þess. Mikill þrýstingur skapaðist því á hæstarétt sem tilkynnti síðdegis á vefsíðu sinni að fyrri ákvörðun hefði verið breytt. 

Mikil og vaxandi óánægja

Vaxandi óánægja er með stjórn Maduros, andstæðingar hans segja að hann og forveri hans Hugo Chavez hafi lagt efnahag Venesúela í rúst. Og víst er að ástandið er mjög alvarlegt. Sár skortur er á flestum helstu nauðsynjavörum í Venesúela. Lyfjaskortur bítur hvað sárast og samtök starfsfólks í heilbrigðisgeiranum hafa lýst því yfir að sjúkrahús landsins eigi ekki nema um þrjú prósent af þeim lyfjum og lækningavörum sem þau þyrftu að eiga. Maduro hefur beðið Sameinuðu þjóðirnar um aðstoð.

Hrunið efnahagslíf

Gjaldmiðill Venesúela er ónýtur, hvergi á byggðu bóli er verðbólga meiri, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hún verði nærri sautján hundruð prósent á árinu. Margir kenna efnahagslegri óstjórn um ástandið en Maduro forseti segir að auðmenn og erlend ríki hafi ráðist til atlögu gegn Venesúela og þeim sé að kenna hvernig ástandið er. Verðfall á olíu, sem er langmikilvægasta útflutningsafurð landsins, hefur gert ástandið enn verra. Stjórnarandstæðingar vilja að Maduro fari frá og nýr forseti verði kosinn svo skjótt sem auðið er.