
Jón Þór lýsti fyrir nokkru yfir að hann hygðist ekki nota orðin háttvirtur um þingmenn og hæstvirtur um ráðherra í ræðum sínum á Alþingi. Jón Þór sagði á þingi í dag að þetta hefði orðið til þess að forseti slægi í bjölluna í hvert sinn sem hann sleppti þessum heitum. Það yrði til að trufla þingmanninn í störfum sínum á Alþingi.
Jón Þór sagði að hingað til hefði forseti úrskurðað um túlkun á þingsköpum, þar á meðal um sín eigin embættisverk. Því hefði hann í samstarfi við lögmann Pírata skoðað að fara fyrir dómstóla. Þannig væri hægt að fá Hæstarétt til að fá kveðið upp úr um hvort þetta gengi, að forseti gæti í raun verið stjórnvald sem stýrði störfum þingsins. Jón Þór sagðist hafa fengið þá ábendingu að slíku máli yrði vísað frá dómi en sagði að þá væri þó fengin staðfesting á því að forseti sé úrskurðaraðili á þingi.
Undir lok ræðu Jóns Þórs sló Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, á bjöllu sína og sagði að ræðunni lokinni: „Forseti gladdist svo yfir ávarpi háttvirts þingmanns að hann kaus að beita bjöllunni af varkárni að þessu sinni." Og uppskar þá nokkurn hlátur. Nokkrum mínútum síðar heyrðist öllu meira í bjöllu forseta þegar Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, var í ræðustól. Þá talaði hann um svikin loforð ríkisstjórnarinnar og dvaldi þar lengur en tímamörk leyfa.