Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hæstiréttur segist æðri jafnréttislögum

24.09.2015 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Innanríkisráðuneytið hefur ítrekað gert athugasemdir við að Hæstiréttur hafi farið á svig við Jafnréttislög á síðustu árum. Hæstiréttur telur lög um dómstóla æðri jafnréttislögum og tilefningar réttarins eigi að ráða. Dómstólaráð og Lögmannafélagið á sömu skoðun.

Kastljós hefur fengið aðgang að bréfasamskiptum innanríkisráðuneytisins og fulltrúa þeirra þriggja stofnana og félagasamtaka sem skipa nefndarmenn í dómnefnd um hæfi umsækjenda um stöður dómara. Eftir að lögum var breytt árið 2010 var nefndinni fært aukið vald, og ákvarðanir hennar í raun gerðar bindandi fyrir ráðherra, nema með atbeina meirihluta alþingis.

Samkvæmt 15. grein jafnréttislaga þar sem fjallað er um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera segir að tilnefna skuli bæði karl og konu í nefnd eins og þá sem stendur að mati umsækjenda um stöður dómara. Ljóst er að Hæstiréttur Íslands hefur ekki hagað skipunum sínum í dómnefnd um hæfi umsækjenda um dómarastöður, í samræmi við þau lög. 

Ítrekuð bréfaskipti

Hæstiréttur skipar tvo af fimm fulltrúum í nefndina, lögmannafélagið, Alþingi og dómstólaráð skipa svo hvert sinn fulltrúann. Kastljós óskaði eftir aðgangi að samskiptum innanríkisráðuneytisins við Hæstarétt vegna málsins, en í samtali við aðstoðarmann innanríkisráðherra í morgun kom fram að ráðuneytið hefði bent Hæstarétti á að skipanirnar væru í bága við lög. Að mati ráðuneytisins ættu jafnréttislög við um Hæstarétt, eins og alla aðra.

Hæstiréttur stóð fast við sitt

Hæstiréttur er því hins vegar ósammála. Telur lög um dómstóla ganga æðri jafnréttislögum og því þurfi Hæstiréttur ekki að skipa karl og konu í nefndina. Í svarbréfi Hæstaréttar frá 2010 kemur fram að rétturinn telji sig ekki hafa heimild til að skipa einstakling í dómnefnd sem ekki sé talinn hæfastur. Orðrétt sagði Þorsteinn Jónsson skrifstofustjóri Hæstaréttar í bréfi fyrir hönd réttarins til ráðherra 24. apríl 2010:

„Þegar af þeirri ástæðu telur Hæstiréttur ekki ástæðu til að tilnefna fleiri til setu í nefndinni en skipa á samkvæmt tilefningu réttarins.“

Sú afstaða var ítrekuð í bréfi frá því 2. ágúst árið 2011. Þann 23. sama mánaðar sendi Innanríkisráðuneytið bréf til Hæstaréttar þar sem þessi afstaða réttarins er hörmuð og óskar eftir viðræðum við Hæstarétt vegna málsins.

Síðan þá hefur Hæstiréttur í tvígang tilnefnt einstakling í nefndina, í bæði skiptin karl, þrátt fyrir að ítrekað sé í bréfum frá innanríkisráðuneytinu að gæta þurfi að jafnri stöðu karla og kvenna í nefndinni. Innanríkisráðuneytið virðist hafa tekið þessi sjónarmið Hæstaréttar, dómstólaráðs og lögmannafélagsins gild meðan leitað yrði svara við því hvort breyta þyrfti ákvæðum laga um dómstóla. Því voru tilnefningarnar staðfestar.

Dómstólaráð klofnaði

Athygli vekur að í þau skipti sem dómstólaráð kaus að skipa í nefndina og vísa til sömu raka og Hæstiréttur varðandi það að  tilmæli Jafnréttislaga ættu ekki við um nefndarskipanin, skáru tveir fulltrúar dómstólaráðs sig úr við afgreiðslu málanna og stóðu ekki að áliti þess. Það voru þær Þorgerður Erlendsdóttir og Þórdís Ingadóttir.