Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hæsti skattgreiðandi landsins

28.07.2010 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðbjörg M. Matthíasdóttir, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og einn af eigendum Morgunblaðsins, er skattadrottning ársins. Ríkisskattstjóri birti í dag álagningu opinbera gjalda á einstaklinga.

Guðbjörg greiðir rúmar þrjú hundruð fjörutíu og tvær milljónir króna í opinber gjöld á þessu ári. Guðbjörg er fyrst kvenna til að verða hæsti skattgreiðandi Íslands. Næstur á listanum er Ingi Guðjónsson, lyfjafræðingur og einn af stofnendum Lyfju. Hann greiðir tæpar tvö hundruð milljónir. Þorsteinn Hjaltested, Vatnsendabóndi, kemur þriðji með tæpar hundrað og tuttugu milljónir.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, greiddi tæpar 160 milljónir í fyrra og Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans greiddi tæpar 100 milljónir en þeir eru ekki á lista nú. Enn má þó sjá kunnugleg nöfn á lista yfir hæstu skattgreiðendur; Kári Stefánsson greiðir um 65 milljónir, Lárus Welding 57 milljónir, Bjarni Ármannsson 55 milljónir, Ingunn Wernersdóttir 50 milljónir, Sævar Karl Ólason, fyrrverandi verslunareigandi, greiðir 38 milljónir, Finnur Árnason, forstjóri Haga, rúmar 35 milljónir og Jóhannes Jónsson í Bónus, greiðir rúmar 30. Skattadrottningin nú greiðir tvöfalt hærri gjöld en Þorsteinn Már Baldvinsson, skattakóngur síðasta árs. Hann kemst ekki einu sinni á lista nú yfir 60 hæstu skattgreiðendurna í ár.