Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hærri gjöld á sjúklinga en ráðgert var

07.12.2016 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hámarks ársgreiðsla fyrir heilbrigðisþjónustu almennra notenda verður 69.700 krónur á ári í nýju kerfi, samkvæmt tilkynningu velferðarráðuneytisins. Þetta er ekki í samræmi við það sem velferðarnefnd Alþingis hefur eftir Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra í nefndaráliti um miðað sé við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50 þúsund krónur.

Drög að reglugerð um greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu hafa verið sett á vef velferðarráðuneytisins en þau eru byggð á breytingu sem gerð var á lögum um sjúkratryggingar. Frestur til að skila inn umsögn rennur út 16. desember.

Breytingin sem var samþykkt felur það í sér að tryggt verði að mánaðarlegar greiðslur fólks vegna heilbrigðisþjónustu fari aldrei yfir tiltekið hámark og þannig sett þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Kveða á nánar um hámarkið í reglugerð. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum.

Í tilkynningu velferðarráðuneytisins er tiltekið þak á kostnað í nýju kerfi. Almennur notandi greiðir 69.700 krónur að hámarki á ári og öryrkjar, aldraðir og börn greiða 46.467 krónur. Almennur notandi með fullan afslátt greiðir að hámarki 49.200 krónur en börn, aldraðir og öryrkja 32.800 krónur.

Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar. Lyfjakostnaður fellur ekki undir þessa þátttöku.

Í þverpólitísku nefndarálit velferðarnefndar sem unnið var þegar breytingin var gerð er vísað í fund með heilbrigðisráðherra þar sem rædd voru önnur reglugerðardrög. Þau gerðu ráð fyrir að hámarks greiðsluþátttaka yrði hátt í 100 þúsund krónur. Í álitinu segir: „[S]tendur til að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en ráðgert var í fyrrnefndum drögum að reglugerð. Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári. Nefndin fagnar yfirlýsingu ráðherra og telur sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum ársins 2017 sem leiði til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“

Svo virðist sem upphæðirnar í tilkynningu ráðuneytisins séu ekki í samræmi við það sem stendur í nefndarálitinu. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sem var formaður velferðarnefndar á þessum tíma, segir tölurnar í reglugerðardrögunum ekki í samræmi við samkomulagið sem gert var. „Það var skýrt að það voru almennu notendurnir sem áttu að greiða að hámarki 50 þúsund krónur, og þeir sem voru með afslátt áttu að greiða 2/3 hluta af því. Nú hefur 50 þúsund króna markið verið fært yfir á þá sem eru á afslætti. Það er ekki í samræmi við það samkomulag sem gert var.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV