Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hærra hlutfall eigin fjár í bílaviðskiptum

07.09.2018 - 12:00
Mynd með færslu
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.  Mynd: RÚV
Ný bílalán námu rúmum 14 milljörðum króna á síðustu tólf mánuðum. Júní og júlí voru metmánuðir. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að fólk fjármagni bílakaup í meiri mæli með staðgreiðslu auk bílaláns. Ekki sé ástæða til að ætla að viðvörunarbjöllur séu farnar að klingja þótt bílalánum sé að fjölga. Endurnýjun bílaflotans sé tímabær.

Landsmenn tóku bílalán fyrir 8,7 milljarða króna fyrstu sjö mánuði ársins eða sjö prósentum meira en á sama tímabili í fyrra. Viðskiptablaðið greinir frá og vísar í gögn frá Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að heildarupphæð bílalána í júlí hafi verið 1,8 milljarðar króna, að frádregnum uppgreiðslum, og fyrra met frá því í júní slegið.  

Jón Hannes Karlsson, framkvæmdastjóra Ergo, segist í Viðskiptablaðinu telja að fólk hafi verið almennt skynsamt í lántökum til bílakaupa á síðustu árum. Aukning í bílalánum sé að mörgu leyti eðlileg þar sem lítil endurnýjun hafi verið á bílum síðustu ár, sérstaklega á árunum 2009 til 2012. Stórir árgangar bíla frá 2005 og fram í árið 2008 séu á götunum og eigendur þeirra séu að skipta þeim út. Enn sé þörf á endurnýjun. 

Runólfur nýskráningar nýrra og notaðra bíla hafi verið undir 10.500 árið 2014 en í fyrra voru þær tæplega 26 þúsund. Hann telur fólk varkárara í bílakaupum en fyrir hrun.
   
„Og það er hærra hlutfall eigin fjár í viðskiptunum. VIð auðvitað höfum víti að varast, það sem gerðist fyrir hrun, þegar margir spenntu bogann ansi hátt og margir fóru illa í kjölfar hrunsins. Þá oft og tíðum var fólk að fjármagna nánast einvörðungu með lánum og það var í boði. En þetta er allt öðruvísi núna og nú þarf fólk líka að uppfylla ákveðnar kröfur áður en það fær í raun að taka neytendalán eins og bílalán. Auðvitað eru bílalán mjög dýr og neytendalán á Íslandi eru mjög dýr,“ segir Runólfur og hvetur fólk til að kynna sér hvaða lán og kjör standa þeim til boða. 

Runólfur segir aukninguna hafa verið mikla á örfáum árum, ákveðinn toppur hafi verið í fyrra og bílasala hafi verið mikil það sem af er ári þótt aðeins sé farið að hægja á ferðinni. Hann gerir ráð fyrir ákveðnum samdrætti áfram til dæmis í bílakaupum bílaleiga. Almennir neytendur séu að taka við sér eftir að hafa haldið að sér höndum lengi og bílum sem sendir eru í eyðingu hafi fjölgað.  

„Þetta er svona hluti af því neysluumhverfi sem við búum við og í sjálfu sér ekki einhverjar viðvörunarbjöllur sem klingja varðandi þessa aukningu í bílalánum sem við sjáum þarna, segir Runólfur. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV