
Ítalski sjóherinn hefur bjargaði 5250 hælisleitendum undanfarna þrjá sólahringa við strendur Lampedusa. Í dag voru það 1500 manns sem höfðu lagt af stað á flekum frá Norður- Afríku og í gær hátt í 200 manns á þremur gúmmíbátum. Þar af voru yfir 80 börn. Þennan mikla fjölda má meðal annars skýra af góðum veðurskilyrðum en einnig stóraukinu eftirliti á þessu hafsvæði eftir að mörg hundruð manns drukknuðu í október.
Spænsk yfirvöld óskuðu enn einu sinni í dag eftir frekari aðstoð til að stemma stigu við straumi hælisleitenda til Melilla, sem er spænskt yfirráðasvæði í Marokkó og tilheyrir þar af leiðandi Evrópusambandinu. Hælisleitendur gera reglulega áhlaup á víggirtar girðingarnar, nú síðast á þriðjudag þegar 500 manns reyndu að klifra yfir í einu. Þeim sem tókst það fögnuðu mjög og kysstu jörðina. Miðstöðin er yfirfull. Pláss er fyrir 450 manns en þar hýrast hátt 2.000 manns.
Samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna fjölgaði nýjum hælisumsóknum í Evrópu um þriðjung árið 2013 frá árinu áður. Það er rakið beint til neyðarinnar í Sýrlandi.
Nýjar hælisumsóknir í Evrópu 2013 voru 484,600 talsins.
Þýskaland er það Evrópuríki sem tók við flestum nýjum hælisumsóknum 2013, (109,600). Þar á eftir kemur Frakkland (60,100) og Svíþjóð 54,300).
Hælisumsóknum fjölgaði á öllum Norðurlöndunum, í heildina um 24%. Langflestir sóttu um hæli í Svíþjóð og fæstir hér á landi.
Á Íslandi 2013 voru nýjar hælisumsóknir alls 150. Árið 2012 voru voru þær 117 talsins.