Hælisleitendur fá enga jólauppbót

16.12.2017 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Jólauppbót, sem hefur gert hælisleitendum kleift að halda jólin hátíðleg undanfarin ár, verður ekki greidd út í ár. Ástæðan er ný reglugerð um útlendinga. 

Útlendingastofnun og þau sveitarfélög sem tekið hafa á móti hælisleitendum greiða fullorðnum einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi átta þúsund krónur á viku í fæðispening og börnum fimm þúsund krónur.  

Í lok nóvember sendi Útlendingastofnun tilkynningu til Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Reykjavíkurborgar um að ekki væru lengur forsendur fyrir sérstökum hátíðargreiðslum, þar sem ekki sé kveðið á um það í nýrri reglugerð um útlendinga sem tók gildi fyrr á árinu.

„Undanfarin ár hefur alltaf verið greiddur út tvöfaldur matarpeningur í jólavikunni til þess að geta keypt örlítið meiri mat í þessari viku, í svartasta skammdeginu, en núna er því miður ekki neitt. Okkar starfsfólk var náttúrlega bara miður sín við þessar fréttir og allir þeir sem vinna með þessum hópi. Það er nú þegar erfitt að ná endum saman á þeirri framfærslu sem fólk fær. Og það er svolítið leitt að þessi hópur sé einn hópa í landinu skilinn út undan,“ segir Áshildur Linnet, verkefnastjóri í málefnum hælisleitenda hjá RKÍ. 

Hún bendir á að mikil hagsæld sé í landinu og vill að jafnræðis sé gætt.

„Það þarf að gæta jafnræðis og það er mikilvægt að við hlúum að öllum hópum í samfélaginu, líka þeim sem að minnst mega sín. Sérstaklega á þessum árstíma“.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi