Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hækkandi meðalaldur kennara mikið áhyggjuefni

05.09.2018 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Meðalaldur leikskólakennara hér á landi hefur hækkað hratt síðasta áratuginn. Formaður Kennarasambands Íslands, Ragnar Þór Pétursson, segir þróunina í sömu átt meðal grunn- og framhaldsskólakennara, nýliðun sé ekki nægjanleg.

Leikskólakennarar sem eru fimmtíu ára og eldri verða sífellt stærri hluti kennarahópsins. Í fyrra voru þeir fjörutíu og tvö prósent. Tíu árum áður voru þeir tuttugu og sex prósent, samkvæmt samantekt á vef Hagstofu Íslands. Að sama skapi hefur leikskólakennurum undir fimmtugu fækkað, ekki aðeins þegar litið er á hlutfallstölur heldur líka þegar fjöldatölur eru skoðaðar. Um 900 leikskólakennarar á aldrinum 30 til 49 ára störfuðu í leikskólum árið 2017. Til samanburðar voru þeir voru 1.142 þegar þeir voru flestir árið 2009.

Meðalaldurinn hæstur meðal framhaldsskólakennara

„Þetta er mikið áhyggjuefni og við höfum látið gera rannsóknir á þessu og þetta hefur verið skoðað  í kjölinn. Það er alveg ómótmælanlegt að það blasir við mjög alvarlegt ástand ef okkur tekst ekki að snúa þessari þróun við,“ segir Ragnar. Margar ástæður eru baki þróuninni sem á sér stað víðar en hér á landi, að sögn hans. „Það sem hefur valdið okkur áhyggjum hér á Íslandi er að það er nýliðunin sem hefur hrunið. Nú er komið nokkuð langt tímabil þar sem það hefur skort á það að ungt fólk fari til þessara starfa hvort sem það er í framhaldsskóla-, grunnskóla- eða leikskólakennslu. Raunar er meðalaldurinn hæstur í framhaldsskólanum og lægstur í leikskólanum og grunnskólinn einhver staðar þarna á milli.“

Margir framhaldsskólakennarar brátt á eftirlaun

Ragnar bendir á að sveitarfélög hafi gripið til aðgerða til að hvetja fólk til að fara í leikskólakennaranám. Sums staðar hafi þær gefið góða raun en annars staðar ekki. „Í grunnskólanum eru aðgerðir sem verið er að kostnaðargreina núna sem eiga að valda aukinni nýliðun og aðsókn í námið.“ Þá bendir Ragnar á að framhaldsskólanám hafi verið stytt sem taki á mesta vandanum þar. Þó séu stórir hópar að fara á eftirlaun á næstu árum og því sé mjög brýnt að fleira ungt fólk fáist til að þessara starfa.