Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hækka raforkuverð til stóriðjunnar

28.02.2019 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Það hefur ekki verið átakalaust fyrir Landsvirkjun að semja við stóriðjuna um hækkandi verð á raforku, að sögn forstjóra fyrirtækisins Harðar Arnarsonar. Verðið hefur verið hækkað á undanförnum árum.

Ársfundur Landsvirkjunar var haldinn í dag. Tekjur hafa hækkað um 11 prósent milli ára og aldrei verið meiri. Hagnaður á síðasta ári nam 14 milljörðum króna.

Á ársfundinum var greint frá því að verð til stórnotenda hafi verið hækkað frá árinu 2003. Þeir eru tíu talsins; álver, kísilverksmiðjur, gagnaver og annar orkufrekur iðnaður. Fram til ársins 2003 var verðið 15 til 25 dollarar fyrir hverja megavattsstund. Samið hefur verið um hækkun hjá átta af tíu stórnotendum og er nýja verðið 30 til 45 dollarar fyrir hverja megavattstund. 

„Það gerist ekki án átaka, skiljanlega. Þetta eru miklir viðskiptahagsmunir sem verið er að takast á um þarna. Þetta eru stærstu viðskiptasamningar sem gerðir eru á Íslandi, þessir langtímasamningar um raforkuna sem við eigum. Þetta eru alþjóðleg fyrirtæki sem eru mjög sterk í sinni samningaaðferðafræði en okkur hefur tekist ágætlega til en það tekur verulega á að endursemja en það hefur tekist,“ segir Hörður.

Stefnt er að því að ljúka samningum við níunda fyrirtækið á árinu. Tíunda fyrirtækið er Alcoa. Samningur við Alcoa var gerður árið 2007. Eftir um tíu ár verður samið upp á nýtt við fyrirtækið um raforkuverð og þegar því verður lokið hefur verð til allra fyrirtækjanna verið hækkað. 

Er verðið svipað og í nágrannalöndunum? „Já, það hefur verið að þróast í þá átt í þessum endursamningum og nýju samningunum sem er verið að gera. Þá myndi ég segja að verðið sé eins og það gerist best annars staðar og þá er ég að meina í löndum sem hafa líka mikið vatnsafl eins og í Noregi og Kanada. Við erum enn þá mjög samkeppnisfær en það er ekki mikill verðmunur, tel ég.“