Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hægt að sjá gasmælingar á vefnum

26.03.2015 - 18:39
Mynd: RÚV / RÚV
Ferðalangar sem ætla að fara upp að Holuhrauni, verða að vera vakandi fyrir gasmengun. Þeir geta fylgst með henni bæði á vef Veðurstofunnar og Umhverfisstofnunar. Vöktun með svæðinu verður efld.

 

Leiðangursmenn frá Veðurstofunni fór að Holuhrauni á þriðjudag og verða þar næstu daga við uppsetningu á gasmælum, vatnshæðarmælum og vefmyndavélum.

Fréttastofa náði tali af Baldri Bergssyni, gassérfræðingi hjá Veðurstofunni sem var við mælingar í gígnum Baugi í dag.

„Ég er búinn að setja upp þrjá mæla fyrir Umhverfisstofnun og þeir munu koma inn á vef þeirra, eins og gasmælarnir voru á meðan á gosinu stóð. Það mun verða með svipuðu móti og svo er verið að vinna í að koma upp svipuðu kerfi á Veðurstofunni, fyrir okkar mæla. Þeir munu einnig sjást á vef Umhverfisstofnunar,“ segir Baldur.

Ferðalangar eru því hvattir til að fylgjast vel með þessum síðum, loftgaedi.is og vedur.is

Enn mikið gas í gígnum
Mengun í gígnum sjálfum mældist lífshættuleg, viku eftir að gosinu lauk og segir Baldur að sú staða hafi lítið breyst.

„Það kemur mjög svipað út úr þessu hjá mér og kom fyrir tveimur og hálfri viku. Það er enn að koma upp frekar mikið gas, ég mældi gildi 45 ppm, sem er 120 þúsund míkrógrömm á rúmmetra hérna inni í gígnum af brennisteinsdíoxíði. Það er lítið breytt, þetta er ennþá mjög virkt svæði og það er mikið um hrun í gígnum. Þetta er greinilega mjög óstabílt svæði.“

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV