Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hægt að herða að ef maður er mjög kvíðinn“

Mynd:  / 

„Hægt að herða að ef maður er mjög kvíðinn“

08.01.2019 - 17:57

Höfundar

Myndlistarmaðurinn Sæmundur Þór Helgason hefur nú hannað belti sem á að aflétta fjárhagsáhyggjum af stressþjökuðu nútímafólki; svokallað Solar Plexus Pressure Belt.

„Beltið örvar sólarplexusinn með djúpþrýstingstækni, þetta er nýr kvíðastillandi tæknibúnaður sem ég bjó til í samstarfi við tískuhönnuðinn Agötu Mickiewicz og grafíkerinn Gabríel Markan,“ segir Sæmundur Þór í samtali við Síðdegisútvarpið. Verkefnið er á vegum Félags borgara, þrýstihóps um borgaralaun á Íslandi. Innblásturinn að verkefninu kemur frá reynslu Sæmundar sjálfs af streitu og tíðum kvíðaköstum sem hann upplifði í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2008.

Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að áratug síðar sé „kreppuástandið“ orðið eðlilegur partur af daglegu lífi fólks. Tímabundin og óörugg atvinna sem var áður talin óæskileg, sé nú orðin óaðskiljanlegur hluti af virkni og innbyggðri rökvísi síðkapítalismans. Samkvæmt hópnum hafa þessar skipulagsbreytingar bein áhrif á líkama fólks og taugakerfi þess.

Mynd með færslu
 Mynd:
Notendur gætu þurft að herða beltið, til að mynda áður en þeir skoða stöðuna á reikningi sínum í hraðbanka.

„Sólarplexus er þétt þyrping taugafruma, stöð í líkamanum þar sem að óróleiki getur myndast, og beltið þrýstir á þennan stað, og róar mann niður,“ segir Sæmundur. Beltið sé hannað til þess að draga tímabundið úr óþægindum þar til þróað hefur verið nýtt efnahagslegt kerfi sem veitir öllum íbúum fjárhagslegt öryggi. „Þetta er bara analog, maður spennir þetta á sig, en það er hægt að velja þrýstinginn, strappi sem er hægt að herða að ef maður er mjög kvíðinn.“

Rætt var við Sæmund Þór Helgason í Síðdegisútvarpinu. Hægt er að kaupa tilraunaútgáfu af Solar Plexus-beltinu og styrkja gerð þess á Karolina Fund, þar sem frekari upplýsingar er að finna.

Tengdar fréttir

Myndlist

Pakka list í list í Ásmundarsal

Myndlist

Sígarettustubbar og typpi úti um allt

Tónlist

Djörf flétta og faglegur hlýleiki

Myndlist

Hagsmunasamtök um borgaralaun eru listaverkið