Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hægt að hefta útbreiðslu lúpínu með slætti

14.07.2016 - 09:51
Mynd með færslu
Reitur þar sem ekkert var gert.  Mynd: Náttúrustofa Vesturlands - Facebook
Fimm ára tilraunir með að slá lúpínu eða eitra fyrir henni í reitum við Stykkishólm hafa skilað árangri og sýna að hægt er að hefta útbreiðslu hennar. Þetta kemur fram í grein í nýju hefti Náttúrufræðingsins.

Veldur umhverfisvanda á heimsvísu

Hægt er að hefta útbreiðslu lúpínu með því að slá hana eða eitra fyrir henni. Þetta er niðurstaða tilraunar sem Náttúrustofa Vesturlands og Stykkishólmsbær hafa staðið að síðastliðin fimm ár. Í greininni í Náttúrufræðingnum , sem Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ása L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson skrifa, segir að á síðari árum hafi Alaskalúpínan verið flokkuð sem ágeng tegund í íslenskum vistkerfum. Með niturbindingu breyti lúpína efnasamsetningu jarðvegs og tilheyri hún þar með þeim flokki ágengra plantna sem taldar eru valda hvað mestum umhverfisvanda á heimsvísu. Ólíklegt sé að hægt sé að endurheimta fyrra gróðurfar þar sem slíkar plöntur hafi farið yfir gróið land, þær geti gjörbreytt gróðurframvindu á lítt grónum svæðum og meðal annars hindrað framvindu í átt að náttúrulegu skóg- og kjarrlendi.

Sláttur betri en eitrun

Tilraunin í Stykkishólmi hefur staðið yfir í fimm ár í samvinnu bæjarins og Náttúrurstofu Vesturlands. Bornir voru saman reitir þar sem lúpínan var látin vaxa óáreitt, þar sem eitrað var fyrir henni og þar sem hún var slegin. Niðurstaðan eftir fimm ár er sú að nota megi bæði slátt og eitrun til að útrýma plöntunnni. Slátturinn skilar samt betri árangri. Í sláttureitunum voru flestar tegundir, mest þekja grasa og blómplantna og minnst af lúpínu. Í eitruðu reitunum var þriðjungur yfirborðs gróðursnauður og þekja grasa marktækt minni en í þeim slegnu. Í lok greinarinnar segir að Stykkishólmsbær hafi með aðgerðum sínum gegn ágengum plöntum sýnt mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög. Þær tegundir ágengra plantna sem hér þrífast geti valdið miklum breytingum á náttúrulegum vistkerfum landsins, sé ekkert að gert.

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV