Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hægt að breyta símum í hlerunartæki“

23.12.2018 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er ekki erfitt að breyta símum með gamalt stýrikerfi í hlerunarbúnað. Þetta segir sérfræðingur hjá netöryggisfyrirtæki. Hann hefur fengið nokkrar fyrirspurnir frá áhyggjufullum forsvarsmönnum fyrirtækja, sérstaklega eftir að Klaustursmálið kom upp.

Hægt að njósna um ferðir barna

Syndis fann nýlega galla í þremur tegundum snjallúra frá þremur framleiðendum. Með tiltölulega einföldum hætti var hægt að fylgjst með ferðum fólks sem bar úrin í rauntíma. Fyrirtækinu hafa undanfarið borist nokkrar fyrirspurnir frá áhyggjufullum forsvarsmönnum fyrirtækja sem vilji vita hvort hægt sé að hlera snjalltæki, önnur en úr.

 „Við viljum helst ekki að fólk fari inn í eitthvert Faraday- búr þar sem engar radíóbylgjur nást en það er mikilvægt að þau tæki sem fólk er að nota, eins og símar, séu uppfærðir því það er ekkert rosalega erfitt að breyta eldri týpum af símum með gömlu stýrikerfi í hlerunartæki,“ segir Valdimar Óskarsson, forstjóri Syndis. 

Fyrirspurnir í kjölfar Klaustursmáls

Hann segir þessar fyrirspurnir hafa verið sérstaklega áberandi eftir að Klaustursmálið kom upp. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, velti því upp, eftir að fyrstu fréttir birtust upp úr hljóðupptökunum af Klausturbar, hvort brotist hefði verið inn í síma einhvers þeirra þingmanna sem þar sátu eða hvort hlerunarbúnaði hefði verið beitt. Áhyggjur Sigmundar voru ekki úr lausu lofti gripnar.

„Ég vil ekki að þetta sé einhver paranoja en menn þurfa samt aðeins að hugsa um að uppfæra tækin sín og stýrikerfin. Það er ekki að ástæðulausu að framleiðendur koma með uppfærslu, við erum allt of löt við að setja þær inn,“ segir Valdimar. 

Mælir með kaupum á nýjum síma, séu uppfærslur hættar að berast

Hann mælir með því að þeir sem eru óöruggir um hvort þeirra tæki séu í lagi leiti til söluaðila eða framleiðenda. En símar hætta stundum að fá uppfærslur, jafnvel bara innan nokkurra ára. Hvað þá? „Þá ættu menn bara að skipta um síma.“