Hægt að aflétta algeru banni við blóðgjöf

02.01.2019 - 18:50
Mynd:  / 
Sóttvarnalæknir telur hægt að breyta algeru banni við því að samkynhneigðir karlar gefi blóð svipað og á öðrum Norðurlöndum. 

Atriði í Áramótaskaupinu þar sem sjúklingur deyr á skurðborði því blóðgjafar sem kallaðir voru til voru allir samkynhneigðir karlar vakti umræður um bann sem lengi hefur gilt um blóðgjafir þeirra. 

„Í fyrsta lagi þá er þessi hópur, það eru auknar líkur á því að hann geti verið með blóðbornar sýkingar eins og HIV og lifrarbólgu C,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, „innan um í þessum hópi eru einstaklingar, sem lifa bara mjög góðu kynlífi, og eru þess vegna ekki í hættu á meðan það eru aðrir, sem að lifa frjálslegu kynlífi, og eru þess vegna í meiri hættu með að geta valdið svona smiti.“

Finnst þér þetta vera mismunun?

„Ef við getum nokkurn veginn tryggt það að blóðið úr þessum einstaklingum sé öruggt að þá má segja að það sé mismunun ef að öllum er meinað frá því að gefa blóð.“

Mynd með færslu
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.  Mynd:
Þórólfur Guðnason

Önnur Norðurlönd áskilja 12 mánaða kynlífsbindindi samkynhneigðra karla áður en blóð er gefið, nema Danmörk þar sem mörkin eru fjórir mánuðir. Ekki má gefa blóð ef til dæmis fólk er með ákveðna sjúkdóma, sprautar sig í æð án fyrirmæla læknis, stundar vændi og kaupir vændi. 

„Fyrst og fremst er náttúrulega verið að tryggja það að þeir sem að þurfa blóð að þeir fái öruggt blóð. Og við erum ekki að tala um það að einhver eigi rétt á því að gefa blóð en rétturinn er þeirra sem þurfa blóð að fá gott blóð.“

Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu sem heilbrigðisráðherra skipaði í október fer meðal annars yfir þessar öryggisreglur. 

„Ég held að miðað við það hvað aðrar þjóðir í Evrópu hafa gert að þá getum við farið frá algeru banni yfir í það að vera með nokkurra mánaða kynlífsbindindi,“ segir sóttvarnalæknir.

Mynd með færslu
 Mynd:
Úr Áramótaskaupinu 2018
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi