Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hæfileikar ráða för, ekki kyn

23.05.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vísar gagnrýni stjórnarandstöðunnar á bug um að ekkert sé um ríkisfjármál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra segir færri konur en karla í ríkisstjórn ekki til marks um kynjamisrétti. Hæfileikar ráði för.

Fyrrverandi ráðherrar hafa gagnrýnt stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar, segja ekkert í henni um ríkisfjármál og gagnrýna hana fyrir að vera óskýra.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það ekki rétt. Mikil áhersla sé lögð á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ný ríkisstjórn hafi vissar áhyggjur af því að staðan í dag kalli á að endurmetin verði getan til að ná heildarjöfnuði á næsta ári. Það sé hins vegar í algjörum forgangi að ná heildarjöfnuði og vera réttum megin við núllið. Þá segir Bjarni að stöðugleiki sé rauði þráðurinn í stjórnarsamstarfinu og stjórnarsáttmálanum. Bjarni sagðist hins vegar reiðubúinn að taka gagnrýni, meira að segja áður en hann taki við embætti.

Borið hefur á gagnrýni á skiptinguna milli kynja í ríkisstjórn. 3 konur eru ráðherrar og 6 karlar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir aðalatriðið að enginn hafi verið valinn sem ráðherra í ríkisstjórnina vegna þess að viðkomandi væri karl en ekki kona. Aðspurður um þá óánægju sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefði lýst yfir vegna þess að hún hafi ekki verið valin sem ráðherra sagði hann að þegar margt hæfileikaríkt fólk væri í þingflokkum eins og í þingflokki Framsóknarflokksins þá komi margir til greina og sem betur fer hafi margir áhuga á ráðherrastarfi. Því sé vel skiljanlegt að þeir sem séu hæfileikaríkir en urðu ekki ráðherrar að sinni séu ekkert sérstaklega ánægðir með það.