Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Guzman fékk aftur lífstíðardóm

12.09.2018 - 14:24
epa07013087 Leader and founder of the terrorist group 'Sendero Luminoso' Abimael Guzman (C) attends a hearing at the Callao Naval Base, in Lima, Peru, 11 September 2018. The leaders of 'Sendero Luminoso', including its founder Abimael
Abimael Guzman í réttarsal í gær. Mynd: EPA-EFE - EFE
Abimael Guzman, leiðtogi skæruliðasamtakanna Skínandi stígs í Perú, hlaut í gær annan lífstíðardóm fyrir sprengjutilræði í höfuðborginni Lima árið 1992, þar sem 25 létu lífið. Níu aðrir forystumenn samtakanna voru einnig dæmdir í lífstíðarfangelsi. 

Maoistasamtökin Skínandi stígur höfðu sig mikið í frammi í Perú á níunda áratug síðustu aldar, en verulega dró úr árásum þeirra eftir að Guzman var handtekinn árið 1992. 

Guzman, sem nú er 83 ára, var sama ár dæmdur í fangelsi til lífstíðar, en mál hans tekið upp að nýju rúmum áratug síðar. Hann var svo aftur dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2006.

Um 70.000 manns féllu í Perú á þeim árum sem samtökin höfðu sig mest í frammi. Sannleiks- og sáttanefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2003 að innan við helmingurinn hefði verið drepinn af liðsmönnum Skínandi stígs, þriðjungurinn drepinn af hermönnum og öðrum vopnuðum sveitum, en ekki væri ljóst með afganginn.

Að sögn fréttastofunnar AFP eru samtökin enn til, en lítið fari fyrir þeim. Liðsmenn samtakanna séu í felum í frumskógum Perú og starfi einkum með fíkniefnasmyglurum til að fjármagna starfsemi sína.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV