Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gunnar veitir Pressunni frest

16.03.2013 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn, hefur veitt vefmiðlinum Pressunni frest til miðvikudags til að verða við kröfum sínum vegna ummæla sem hann telur ærumeiðandi. Hann krefst fimm milljóna króna greiðslu frá eigendum Pressunnar, annars höfði hann mál gegn þeim.

Lögmaður Gunnars sendi eigendum Pressunnar erindi í fyrradag vegna málsins. Farið var fram á að þeir drægju tilbaka á fimmta tug ummæla sem Gunnar telur vera ærumeiðandi og birt voru í Pressunni, frá haustinu 2010 og fram á sumar 2011.

Í umfjöllun Pressunnar var Gunnar sakaður um að hafa brotið gegn hópi kvenna. Þá krefst Gunnar afsökunarbeiðnar, að fréttirnar verði fjarlægðar og að Pressan greiði Gunnari fimm milljónir króna. Frestur var gefinn til dagsloka í gær.

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars segir að forsvarsmenn Pressunnar hafi farið fram á frest til miðvikudags til að bregðast við kröfunni og hafi hann verið veittur.Einar Hugi segir að verði ekki gengið að kröfum Gunnars fyrir þann tíma verði höfðað mál gegn Pressunni.